Stjarnan slapp fyrir horn

Tandri Már Konráðsson, fyrirliði Stjörnunnar. Mynd/Stjarnan

Stjarnan marði sigur á ÍBV, 30:29, eftir spennandi lokamínútur í leik liðanna í Olísdeild karla í handknattleik í TM-höllinni í Garðabæ í kvöld. Stjarnan var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17:13, og virtist vera með öll ráð í hendi sinni þegar Eyjamenn gerðu áhlaup á lokakaflanum og voru í raun óheppnir að krækja ekki í annað stigið þegar upp var staðið. ÍBV átti alltént síðustu sókn leiksins.


Stjarnan er þar með áfram í sjöunda til níunda sæti með sjö stig núna og hefur jafnað KA og Fram að stigum. ÍBV er í sætinu fyrir ofan með níu stig.
Stjörnumenn ætluðu greinilega ekki að brenna sig á sama soðinu tvisvar í röð því þeir mættu af fullum þunga inn í leikinn við ÍBV ólíkt því sem gerðist gegn ÍR í síðustu viku. Varnarleikurinn var góður og liðið fékk mörg hraðaupphlaup sem léttu leikmönnum lífið. Sóknarleikur ÍBV var hinsvegar hikandi. Allan fyrri hálfleikinn var hann fremur hægur og á tíðum ráðleysislegur.


Mestur var munurinn fimm mörk rétt fyrir miðjan fyrri hálfleik, 11:6. Lengst af munaði þremur til fjórum mörkum. Eftir að Stjarnan skoraði sitt 15. mark á 22. mínútu tóku við rúmar sex mínútur án marks. Eyjamönnum tókst ekki að færa sér þetta tækifæri í nyt til að minnka muninn, hvað þá að jafna.

Staðan í Olísdeild karla.


Tandri Már Konráðsson og Björgvin Þór Hólmgeirsson losuðu um stífluna fyrir hálfleik og sáu til þess að Stjarnan fór með fjögurra marka forskot inn í hálfleik, 17:13.
Stjörnumenn héldu áfram forskoti sínu og um miðjan síðari hálfleik var fimm marka munur, 23:18.

Eyjamenn bitu frá sér síðasta stundarfjórðunginn. Bæði batnaði vörnin og eins jókst mönnum þor í sókninni. Ákveðin örvænting greip um sig í sóknarleik Stjörnunnar. Í stað yfirvegunar tóku við ótímabær skot.
Fimm mínútum fyrir leikslok var forskot Stjörnunnar eitt mark, 27:26. Mínútu síðar var staðan jöfn.


Mikil breyting hefur orðið á liði ÍBV á skömmum tíma. Það er borið upp af ungum og lítt þekktum piltum sem aldir eru upp hjá félaginu þótt vissulega séu þar enn þekkt nöfn eins og Kári Kristján Kristjánsson, Theodór Sigurbjörnsson, Róbert Sigurðarson, Dagur Arnarsson auk Ásgeirs Snæs Vignissonar sem kom til félagsins í sumar sem leið frá Val.


Fyrir mann sem ekki hefur séð marga leiki með ÍBV á leiktíðinni þá skal viðurkennt að ég var á tíðum að klóra mér í skallanum og leita að heitum leikmanna á leikskýrslu meðan fylgst var með leiknum í TM-höllinni. Það verður spennandi að sjá hvað þjálfararnir Erlingur Richardsson og Kristinn Guðmundsson töfra fram hjá þessum unga hóp leikmanna á næstu árum. Efniviðurinn er svo sannarlega fyrir hendi. Hann verður líka að fá sitt tækifæri til þess að gera mistök eins hann gerði nokkuð af í TM-höllinni að þessu sinni.


Það er líka verið að byggja upp í Garðabænum. Það var m.a. gaman að sjá að Adam Thorstensen, markvörður, er að ná sér á strik en ekki leikur vafi á að hæfileikarnir eru fyrir hendi. Ekki er verra að hafa Sigurð Dan Óskarsson til að verja vítaköstin.
Fleiri ungir menn og aukinn baráttuandi hefur komið með Patreki þjálfara Jóhannessyni.

Mörk Stjörnunnar: Tandri Már Konráðsson 8, Starri Friðriksson 5, Björgvin Þór Hólmgeirsson 5, Leo Snær Pétursson 3, Brynjar Hólm Grétarsson 3, Sverrir Eyjólfsson 2, Dagur Gautason 2, Pétur Árni Hauksson 1, Hjálmtýr Alfreðsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 7, 23,3% – Sigurður Dan Óskarsson 3, 33,3%.
Mörk ÍBV: Kári Kristján Kristjánsson 5, Hákon Daði Styrmisson 5, Theodór Sigurbjörnsson 5, Ásgeir Snær Vignisson 5, Dagur Arnarsson 4, Arnór Viðarsson 3, Elmar Erlingsson 1, Róbert Sigurðarson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 18, 39,1% – Björn Viðar Björnsson 1 – 50%.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -