- Auglýsing -

Stoltur og ánægður að vera valinn

Elvar Ásgeirsson t.v. og Kristján Örn Kristjánsson, Donni. Mynd/Aðsend

„Auðvitað er ég bara stoltur og ánægður að vera valinn,“ sagði Elvar Ásgeirsson, handknattleiksmaður Nancy í Frakklandi og eini leikmaðurinn í 20-manna EM landsliðshópnum sem valinn var í gær sem hefur ekki leikið með A-landsliðinu. Elvar mun þar með þreyta frumraun sína með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Búdapest gangi allt að óskum.

Elvar er fyrsti uppaldi handknattleiksmaður Afureldingar sem tekur þátt í stórmóti með íslenska landsliðinu. Hann var valinn í landsliðið í apríl til þátttöku í leikjum við Ísrael og Litáen í undankeppni EM. Því miður varð Elvar að draga sig út úr hópnum á elleftu stundu vegna veikinda.

Elvar Ásgeirsson er 27 ára gamall leikmaður franska 1. deildarliðsins Nancy en liðið kom upp í efstu deild í vor. Hann lék upp yngri flokka Aftureldingar og tók fyrst þátt í meistararflokksleik árið 2011. Elvar lék með Aftureldingu til ársins 2019 að hann gekk til liðs við TVB 1898 Stuttgart sem leikur í  þýsku 1. deildinni. Í febrúar á þessu ári gekk Elvar til liðs við Grand Nancy Métropole Handball. Hann er fyrst og fremst miðjumaður en getur einnig leikið sem vinstri skytta.


Elvar tók þátt í æfingaviku landsliðsins hér heima í byrjun nóvember og fékk þar nasaþefinn að undirbúningnum sem framundan er en landsliðið kemur saman til æfinga 2. janúar og heldur til Ungverjalands níu dögum síðar.

„Ég hreinlega veit ekki hvert hlutverk mitt í landsliðinu verður. Ég hef ekki rætt það við teymið en eflaust verður það gert í undirbúningnum. Ég er klár í það hlutverk sem mér verður falið,“ sagði Elvar við handbolta.is í gærkvöld.


„Ég fór aldrei á stórmót með yngri landsliðum, svo þetta verður eitthvað nýtt,“ sagði Elvar Ásgeirsson, nýbakaður landsliðsmaður í handknattleik.


- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -