- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stöndum á meðan stætt er

Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -
  • Útgefendur handbolta.is óska lesendum sínum nær og fjær gleðilegs árs 2022 með þökk fyrir samfylgdina á árinu 2021, fyrsta heila starfsárið. Lesendum handbolta.is hefur haldið áfram að fjölga jafnt og þétt. Fyrir það erum við mjög þakklát.
  • Árið var erfitt en í senn lærdómsríkt og skemmtilegt. Verkefni voru mörg og af ýmsu tagi og víst er að ekki eru allir dagar eins hjá manni sem heldur um alla þræði reksturs lítils fyrirtækis.
  • Eitt og annað var reynt, sumt heppnaðist bærilega, annað verr og ekkert við því að gera. Ýmislegt komist í verk. Öðrum þáttum hefði sannarlega mátt sinna af meiri krafti.
  • Frá 3. sepember 2020 þegar ýtt var úr vör hefur handbolti.is verið uppfærður með fréttum á hverjum einasta degi. Á þessum tíma hafa birst nærri 5.500 greinar og hafa yfir 90% þeirra verið skrifaðar af eina launaða starfsmanni handbolta.is.
  • Reynt hefur verið eftir mætti að fylgjast með því sem um er að vera í handknattleik hér innanlands og þá ekki síður fregnum af keppni í neðri deildunum en í þeim efri. Haft hefur verið í huga að fjalla eins jafnt um keppni kynjanna og kostur er.
  • Augum hefur verið beint að fjölmennum hópi íslensks handknattleiksfólks sem leikur utan heimalandsins. Einnig hefur þess verið freistað að fylgjast með því sem efst hefur verið á baugi utanlands.
  • Þegar yngri landsliðin tóku þátt í mótum í sumar og í haust var framgöngu þeirra gert hærra undir höfði en áður en hefur verið gert í fjölmiðlum hér á landi.
  • Ferðast var með A-landsliði kvenna þegar það tók þátt í keppni á erlendri grund í haust en vegna mikilla takmarkana var ekki hægt að fylgja landsliðinu eftir í keppni síðla síðasta vetrar og í vor. Skrifast það fyrst og fremst á veiruna fremur en áhuga hafi skort af hálfu útgefanda.
  • Handbolti.is hafði það þó af að fylgja eftir A-landsliði karla þegar það tók þátt í heimsmeistaramótinu í Egyptalandi fyrir ári við afar krefjandi aðstæður. Að því er stefnt að vera með þegar flautað verður til leiks EM í Ungverjalandi eftir miðjan mánuð og þess freistað að leggja meira í sölurnar m.a. annars með því hafa ljósmyndara með í för.
  • Því miður hafa utanaðkomandi talið sig vera þess umkomnir taka að sér ritstjórn handbolta.is. Ekki í þeim tilgangi að benda á villur í málfari eða stafsetningu né til að létta undir róðurinn heldur til að krefjast þess að sannar fréttir væru fjarlægðar af því að birting þeirra hentaði ekki þeim eða þeirra umbjóðendum. Jafnvel enn ömurlegri aðferðum hefur verið beitt til þess að sýna ímyndað vald, hroka og yfirlæti vegna frétta sem birst hafa.
  • Þrátt fyrir fjölgun lesanda og traustan hóp velunnara sem styðja við bakið á útgáfunni með styrkjum og annarri ómetanlegri aðstoð hefur ekki tekist að tryggja viðundandi tekjur á liðnum 16 mánuðum þótt útgjöldum hafi verið haldið í lágmarki og engu eytt sem ekki hefur verið til peningur fyrir.
  • Tekjurnar hafa því miður frekar dregist saman síðustu mánuði fremur en vaxið. Botninum var náð í nóvember og desember. Án ómetanlegra bakhjarla frá fyrsta degi, Olís, HSÍ, JAKO og Björgvins Þórs Rúnarssonar fasteignasala auk nokkurra einstaklinga væri útgáfan komin í þrot fyrir nokkru.
  • Árið 2022 mun að óbreyttu skera úr um hvort handbolti.is eigi framtíð fyrir sér. Víst er að hann verður vart rekinn í núverandi mynd af áhuga og góðum óskum til langframa. Kannski verða það örlög handbolta.is að fara sömu leið annarra handboltamiðla hér á landi á síðustu árum að verða hobbímiðill og lognast jafnt og þétt út af.
  • Ekki stendur til að detta af baki, alltént ekki fyrr en í fulla hnefana. Í upphafi nýs árs er við hæfi að horfa með hæfilegri bjartsýni fram á veginn með von um að handbolta.is vaxi örlítið fiskur um hrygg og öðlist meiri hljómgrunn meðal auglýsenda. Stöndum meðan stætt er.

    Með nýárskveðju,

    Ívar Benediktsson, ritstjóri, ivar@handbolti.is
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -