- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stórleikur Ómars Inga – Bjarki Már gat ekki verið með

Ómar Ingi Magnússon leikmaður SC Magdeburg. Mynd/SC Magdeburg
- Auglýsing -

Ómar Ingi Magnússon átti enn einn stórleikinn á leiktíðinni fyrir SC Magdeburg í dag þegar liðið vann Nordhorn með sjö marka mun á útivelli, 33:26, í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Selfyssingurinn skoraði 12 mörk, þar af átta, úr vítaköstum og átti auk þess nokkrar stoðsendingar. Magdeburg situr í fjórða sæti deildarinnar.


Ómar Ingi er nú þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar með 162 mörk og er níu mörkum á eftir Marcel Schiller, leikmanni Göppingen, sem er efstur á blaði. Robert Weber, leikmaður Nordhorn, er í öðru sæti aðeins marki á undan Ómari Inga. Weber skoraði aðeins eitt mark í dag. Viggó Kristjánsson er fjórði með 157 mörk.


Alexander Petersson og liðsmenn Flensburg endurheimtu efsta sæti deildarinnar með öruggum sigri á Leipzig á heimavelli, 29:23. Alexander skoraði ekki mark að þessu sinni.

Bjarki Már Elísson, markakóngur þýsku 1. deildarinnar á síðasta keppnistímabili. Mynd/Lemgo Lippe

Hefur ekki sopið seyðið

Bjarki Már Elísson lék ekki með Lemgo þegar liðið vann GWD Minden, 29:27, í hörkuleik á heimavelli Lemgo. Þetta var fyrsti leikur Lemgo í ríflega þrjár vikur en kórónuveira stakk sér niður í herbúðir liðsins. Bjarki Már sagði við handbolta.is að hann hafi ekki verið búinn að súpa seyðið af veirunni og þar af leiðandi ekki tekið þátt í leiknum í dag.

Ekki æft í 20 daga

„Við vorum nokkrir sem vorum lengi að losna við veiruna og ég fékk fyrst neikvætt próf á föstudaginn,“ sagði Bjarki Már við handbolta.is í dag. „Þegar prófið lá fyrir var einfaldlega of stuttur tími fram að leik til þess að ég fengi að spila enda ekki búinn að æfa í 20 daga. Ég fer í læknisskoðun á morgun og verð klár til æfinga í framhaldi af henni ef allt gengur eftir,“ sagði Bjarki Már ennfremur.

Tek þetta á kassann

Bjarki Már var svekktur að missa af leiknum enda í hörkukeppni við að verja markakóngstitilinn sem hann vann á síðustu leiktíð. „Það er svekkjandi upp á markakóngsbaráttuna að missa úr einn leik. En maður verður að taka það á kassann,“ sagði Bjarki Már brattur að vanda þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið.


Viggó Kristjánsson skoraði fjögur mörk, þar af eitt úr vítakasti, þegar lið hans Stuttgart tapaði á heimavelli fyrir Wetzlar sem Viggó lék með á síðustu leiktíð. Lokatölur, 31:24.


Ýmir Örn Gíslason og samherjar í Rhein-Neckar Löwen halda sig við toppinn sem fyrr. Þeir unnu botnlið deildarinnar, Coburg, 31:28, á útivelli og komust upp í annað sæti deildarinnar með 38 stig. Liðið hefur hinsvegar leikið mun fleiri leiki en Flensburg og Kiel sem líklegust þykja til að vinna deildina.


Staðan í þýsku 1. deildinni:
Flensburg 38(21), Rhein-Neckar Löwen 38(26), Kiel 37(21), Magdeburg 36(24), Göppingen 33(23), Füchse Berlin 29(24), Bergischer HC 27(22), Wetzlar 26(24), Melsungen 25(21), Lemgo 24(22), Leipzig 23(24), Erlangen 22(23), Stuttgart 21(25), Hannover-Burgdorf 18(23), GWD Minden 16(25), Balingen-Weilstetten 15(24), Nordhorn 12(25), Essen 11(24), Ludwigshafen 11(24), Coburg 8(25).

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -