- Auglýsing -
- Auglýsing -

Strákarnir svöruðu kallinu heldur betur

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, í rauðum bol, fylgist með sínum mönnum í leik við FH um liðna helgi. Arnar Daði fagnaði sigri í kvöld. Mynd/ J.L.Long
- Auglýsing -

„Frábær fyrri hálfleikur skilaði okkur þessum sigri. Stefán Huldar var í miklum ham í fyrri hálfleik og það gaf vörninni aukið sjálfstraust sem skilaði sér í góðum sóknarleik,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, við handbolta.is eftir sigurinn á ÍR, 29:21, í Hertzhöllinni í kvöld en leikurinn var liður í Olísdeild karla. Um var að ræða fyrsta sigur Gróttu í deildinni á leiktíðinni.


„Við höfum byrjað alla leikina hingað til mjög vel. Það var engin breyting á því í kvöld. Við þjálfarnir lögðum spilin svolítið í hendur leikmanna fyrir leikinn. Við erum með samheldinn hóp sem vill ná árangri og strákarnir sýndu það á vellinum í kvöld. Þeir svöruðu kallinu heldur betur,“ sagði Arnar Daði.


Spurður hvaða þætti leiksins hafði fyrirfram verið lögð áhersla á svaraði Arnar Daði að sérstaklega hafi verið hugað að varnarleiknum sem var á tíðum góður hjá Gróttu í haust áður en hlé var gert á keppni í Olísdeildinni. „Við vildum ná upp þeim varnarleik sem við sýndum fyrir pásuna. Mér fannst það ganga upp að mestu leyti. Það skilaði sér í betri markvörslu og auknu sjálfstrausti sóknarlega.“

Næsti leikur Gróttu verður á móti ÍBV í næstu viku. Arnar Daði leggur þunga í orð sín um að menn hans verði að komast fljótt niður á jörðina eftir sigurinn í kvöld. Hann verði ekki talinn með í næsta leik.

„Nú þurfa menn að koma sér niður á jörðina. Allir leikir eru mikilvægir fyrir okkur og við erum spenntir fyrir því að fara til Eyja á miðvikudaginn og mæla okkur við firnasterkt lið ÍBV,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari karlaliðs Gróttu við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -