- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stríð þegar inn á völlinn verður komið

Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Við viljum komast í hóp allra fremstu landsliða í heiminum. Ungverjar eru í þeim hóp og því verðum við að slá þá út til þess að komast nær markmiði okkar. Verkefnið er stórt en ég tel það gerlegt fyrir okkar lið,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson markvörður landsliðsins í handknattleik sem mætir ungverska landsliðinu í síðustu umferð B-riðils Evrópumótsins í handknattleik klukkan 17 í dag. 

Mikið er undir

Leikurinn skiptir verulegu máli fyrir bæði landsliðin. Tapliðið getur setið eftir með sárt ennið eða farið áfram í milliriðil án stiga. Sigurliðið getur svifið vængjum þöndum inn í milliriðla með dýrmæt stig í farteskinu. Jafntefli fleytir íslenska liðinu áfram en hugsanlega ekki Ungverjum, allt eftir því hvernig síðari leikur kvöldsins í MVM Dome endar. Í honum mætast Hollendingar og Portúgalar sem eiga möguleika á sæti í milliriðli þótt möguleikar Hollendinga, undir stjórn Erlings Richardssonar séu meiri. 

„Við höfum séð veikleikamerki á ungverska liðinu og vafalaust hafa þeir séð eitthvað svipað hjá okkur. Leikurinn verður stríð þegar inn á leikvöllinn verður komið. Við verðum að vera klárir í æðislegan leik og vera glaðir,“ sagði Björgvin Páll. 

Lekai getur tekið af skarið

Björgvin Páll segir talsverða reynslu búa í ungverska liðinu. Hinn þrautreyndi Mate Lekai taki oft af skarið þegar á leiki þess líður. Hann getur gert nánast hvað sem er upp á eigin spýtur. Línumenn ungverska liðsins er stórir og nautsterkir auk þess sem markverðir liðsins séu sjóaðir og hafa á tíðum reynst íslenska liðinu erfiðir. Til viðbótar hefur ungverska liðið á að skipa einni efnilegustu skyttu í heiminum í dag, Dominik Mate, sem m.a. Innsiglaði sigurinn á portúgalska landsliðinu í fyrradag. 

Erum með frábært lið

„Við verðum að beisla það sem við ætlum að einbeita okkur að, velja og hafna. Fyrst og fremst einbeitum við að okkur sjálfum. Við erum með frábært lið sem leikur sóknarleik sem yndislegt er að horfa á. Ef við höldum vel á spilunum okkar þá gerum við góðan leik úr þessu. Sjálfstraustið er fyrir hendi,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, einn markvarða íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is í gær. 

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -