- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stýrðum leiknum frá upphafi

Patrekur Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Við héldum okkur við þá áætlun sem lagt var upp með enda vorum við vel undirbúnir,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við handbolta.is eftir að lið hans tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í handknattleik karla með öruggum sigri á Gróttu, 28:24, í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í gærkvöld.


Stjarnan lék bæði 6/0 og 5/1 vörn í leiknum. Patrekur sagði varnarleikinn hafa gengið vel enda hafi tekist að slá mjög á sóknarleik Gróttumanna.


„Við vorum með stjórn á leiknum frá upphafi sem er mikilvægt gegn Gróttu. Ég er einfaldlega ánægður með þetta. Margir leikmenn sem tóku ábyrgð þótt Björgvin [Þór Hólmgeirsson] hafi skarað fram úr og verið hreint stórkostlegur. Við hefðum alveg getað unnið leikinn stærra,“ sagði Patrekur sem eins og fleiri þjálfarar sér fram á að vera án sterkra leikmanna á næstunni vegna meiðsla þeirra.


„Ég sakna Brynjars Hólm sem var einn besti varnarmaður deildarinnar á síðasta keppnistímabili. Hafþór [Már Vignisson] leysti sitt hlutverk vel með Tandra [Má Konráðssyni]. Eins var fimm einn vörnin góð með Hjálmtý sem fremsta mann.


Gunnar Steinn er tæpur vegna meiðsla og lék ekki með okkur. Einnig er Pétur Árni Hauksson frá vegna meiðsla. Þremenningarnir koma inn þegar á líður tímabilið.


Ég er bara nokkuð brattur eftir þennan leik og ánægður með hvernig okkur tókst til,“ sagði Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar sem getur farið að búa sig undir að mæta KA í átta liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í TM-höllinni í Garðabæ á mánudagkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -