Teitur Örn með fimm – Elvar Örn er meiddur

Teitur Örn Einarsson, leikmaður Flensburg. Mynd/Flensburg Handewitt

Teitur Örn Einarsson átti prýðilegan leik þegar lið hans Flensburg vann öruggan sigur á Melsungen, 32:26, í Melsungen í dag í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Teitur Örn skorað fimm mörk og átti tvær stoðsendingar. Frændi hans, Elvar Örn Jónsson, lék ekki með Melsungen vegna meiðsla í hné, eftir því sem segir á heimasíðu félagsins. Elvar Örn fylgdist með leiknum úr áhorfendastúkunni.


Arnar Freyr Arnarsson var öflugur í liði Melsungen og skoraði fjögur mörk. Alexander Petersson skoraði ekki mark að þessu sinni en var einu sinni vísað af leikvelli. Hann gaf ekkert eftir í varnarleiknum frekar en fyrri daginn.


Flensburg komst upp í þriðja sæti með sigrinum með 37 stig eftir 24 leiki. Füchse Berlin er einnig með 37 stig og á leik til góða á móti Ými Erni Gíslasyni og samherjum í Rhein-Neckar Löwen í Mannheim síðar í dag.


Flensburg er sjö stigum á eftir Magdeburg sem trónir á toppnum sem fyrr. Melsungen er í sjötta sæti og er í harðri keppni við Wetzlar um 5. sæti sem gefur þátttökurétt í Evrópukeppni á næstu leiktíð. Mikið vatn á eftir að renna til sjávar áður en deildarkeppninni lýkur í vor. Melsungen á til að mynda 10 leiki eftir.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -