Þær þýsku voru sterkastar

Leikmenn Bietigheim fagna sigri í Evrópudeildinni. Mynd/EPA

Þýska liðið Bietigheim stóð uppi sem sigurvegari í Evrópudeild kvenna í handknattleik eftir stórsigur á Viborg í úrslitaleik, 31:20. Úrslitahelgi Evrópudeildarinnar fór fram í Viborg á Jótlandi í dag og í gær. Herning-Ikast hlaut bronsverðlaun. Herning-Ikast vann Baia Mare frá Rúmeníu, 29:28. Vítakeppni þurfti til að knýja fram úrslit.


Viborg lagði Baia Mare í undanúrslitum í gær og Bieitigheim vann Herning-Ikast með eins marks mun.


Úrslitaleikurinn í dag varð hinsvegar aldrei spennandi þótt leikið væri á heimavelli Viborg og liðið með nær því alla áhorfendur á sínu bandi. Strax að loknum fyrri hálfleik var sjö marka munur á liðunum 17:10. Leikmenn Bietigheim gáfu ekki þumlung eftir í síðari hálfleik og unnu með 11 marka mun.

Xenia Smits t.h. var valin mikilvægasti leikmaður úrslitahelginarinnar. Mynd/EPA


Julia Maidhof var markahæst í liði Evrópumeistaranna með sex mörk. Xenia Smits var næst með fimm mörk. Kristina Jörgensen skoraði fimm mörk fyrir Viborg og Lærke Nolsö Pedersen var næst með fjögur mörk.


Melinda Szikora átti stórleik í marki Bietigheim. Hún var með rúmlega 42% markvörslu þegar upp var staðið.


Bietigheim hafði yfirburði í þýsku 1. deildinni í vetur og unnið allar 24 viðureignir sínar í deildinni til þessa. Liðið endurheimti á dögunum meistaratitilinn sem það tapaði í hendur Borussia Dortmund á síðasta keppnistímabili.


- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -