- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þegar þungir og svifaseinir Sovétmenn komu í heimsókn

Skjáskot af íþróttasíðu Morgunblaðsins 9. febrúar 1973.
- Auglýsing -

Glöggur lesandi handbolta.is  var á dögunum að blaða í dagblöðum frá fyrri tíð þegar hann rakst á ítarlega umfjöllun í Morgunblaðinu um vináttulandsleik landsliða Íslands og Sovétríkjanna í karlaflokki sem fram fór í Laugardalshöll fimmtudaginn 8. febrúar 1973. Stóðst hann ekki mátið að senda ritstjórn handbolta.is umfjöllunina. Neðanritaður stóðst ekki freistinguna að deila nokkrum atriðum greinarinnar með lesendum sínum með von um að þeir hafi gagn og gaman af.

Sumt kom blaðamanni Morgunblaðsins spánskt fyrir sjónir og víst er að hann var ekki hrifinn að „sjö á sex“ tilraunum Sovétmanna eins og það kallast í dag árið 2020, ekki frekar en margir um þessar mundir þegar algengara er að bryddað sé upp á því bragði.

Markverðinum teflt fram

„Nokkrum sinnum í leiknum reyndu Sovétmenn það að tefla markverði sínum fram í sókn sinni. Ekki var hægt að segja að það bæri mikinn árangur, enda næsta fátítt að slíkt sé reynt,“ skrifar blaðamaður Morgunblaðsins. Taka skal fram að honum fannst ekki mikið til sovéska landsliðsins koma í leiknum en það tapaði 23:19 gegn „lítt samæfðu“ íslensku landsliði. Blaðamaður taldi víst að hér væri alls ekki á ferðinni sterkasta landslið Sovétríkjanna og skrifaði m.a að það hafi verið erfitt að fá helstu upplýsingar um þá sem teflt var fram í leiknum.

Leikbragð sem sást í Hálogalandi

Fleira vakti athygli blaðamanns í leik Sovétmanna en að reynt væri að bæta við aukamanni í sóknarleiknum: „Þá sýndu Sovétmenn leikbragð sem maður hefur tæpast séð síðan í Hálogalandi forðum daga, þ.e. að senda boltann hátt inn í teiginn og freista þess að tækifæri gæfist fyrir leikmann að stökkva á eftir honum og skora. Þetta heppnaðist a.m.k. tvisvar en á tæpast að vera hægt ef vörnin er nógu vel vakandi.“

Þetta „leikbragð” var síðar kallað sirkusmark hér á landi þótt ekki hafi mikið borið á því meðal íslenskra handknattleiksmanna hér heima lengi vel. Sirkusmark var lengi kallað „hassloch“ og var nefnt eftir tékknesku liði sem kom hingað í heimsókn snemma á sjöunda áratugnum. Eftir að þeir höfðu raðað inn sirkusmörkum á íslenska handboltamenn að viðstöddum opinmyntum áhorfendum í Hálogalandi fékk fyrirbærið heitið „hassloch“. Íslenskir handboltamenn af eldri kynslóðinni nota jafnvel enn í dag ekki annað orð yfir fyrirbærið.  

Fyrir þá sem ekki vita um Hálogaland þá var það íþróttahús sem stóð ekki langt frá þeim stað það sem Menntaskólinn við Sund er núna eða þar um bil. Húsið var reist af hernámsliðinu á tímum seinni heimsstyrjaldar og var um áratugaskeið skásta íþróttahús landsins. Það var einnig nýtt til tónleikahalds á stríðsárunum.

Skjáskot af íþróttasíðu Morgunblaðsins 9. febrúar 1973.

Þungir, svifaseinir með leikkerfi

Þótt blaðamanni hafi ekki þótt sovéska liðið vera burðugt og leikmenn „þungir og svifaseinir“ þá vakti fleira í leik liðsins athygli hans en að bæta markverðinum við í sóknina eða reynt væri að skora sirkusmörk. Það voru leikkerfi: „Leikmenn liðsins voru flestir fremur þungir og svifaseinir, en bættu það nokkuð upp með þrautþjálfuðum leikkerfum sínum. Nær öll mörk Sovétmanna komu eftir slíkar leikfléttur og gekk íslenzka liðinu furðulega illa að finna svar við þeim.“

„Lýtir búninginn alls ekki.“

Enn einu áhugverðu atriði skaut upp í þessum leik þótt það tengdist ekki sovéska liðinu. Í myndatexta með fimm dálka mynd af Valsmanninum  Gunnsteini  Skúlasyni  á auðum sjó segir: „Svo sem sjá má er komin auglýsing á landsliðsbúninginn – frá Flugfélagi Íslands. Er auglýsingin smekkleg og lýtir búninginn alls ekki.“

Ívar Benediktsson, ivar@handbolti.is

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -