Þór semur við línumann frá Vardar

Handknattleikslið Þórs á Akureyri hefur tryggt sér krafta Kostadin Petrov, línumanns frá Norður Makedóníu, fyrir næsta keppnistímabili. Frá þessu segir Akureyri.net í kvöld.


Petrov stendur á þrítugu og lék með meistaraliði RK Vardar síðari hluta síðasta keppnistímabils eftir að hafa byrjað leiktíðina með RK Metalurg en fór þaðan eins og fleiri þegar í ljós kom að peningamálin voru í ólestri hjá félaginu eins og handbolti.is sagði frá í nóvember.


Petrov er stór og stæðilegur, sagður vera 190 sentímetrar á hæð og liðlega 100 kg að þyngd.


Auk Vardar, Metalurg og Pelister í heimalandinu hefur Petrov m.a. leikið með Quabit Guadalajara á Spáni og CSU Suceava í Rúmeníu. Petrov hefur af og til átt sæti í landsliði Norður Makedóníu á síðustu fjórum árum.


Petrov kemur til Akureyrar fyrir milligöngu landa síns Stevce Alusevski þjálfara Þórs.


Þórsarar leika í Grill66-deildinni á næsta keppnistímabili. Keppni í deildinni hefst 23. september og mætir Þór liði Fjölnis í fyrstu umferð í Höllinni á Akureyri.


a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -