Titilvörnin hefst í Mosfellsbæ 8. september

Íslandsmeistarar Vals í handknattleik karla 2022. Mynd/Ívar

Íslandsmeistarar Vals í handknattleik karla hefja titilvörnina í Mosfellsbæ fimmtudaginn 8. september samkvæmt frumdrögum að leikjadagskrá Olísdeildar karla sem HSÍ hefur gefið út. Samkvæmt drögunum fara fjórir af sex leikjum fyrstu umferðar fram 8. september. Þar á meðal er viðureign Aftureldingar og Íslandsmeistara Vals að Varmá.


Fram, sem leikur í nýju og glæsilegu íþróttahúsi í Úlfarsárdal frá og með næsta keppnistímabili, fær heimaleik í fyrstu umferð á móti Selfossi á fyrsta leikdegi. Haukar taka á móti KA og Grótta fær nýliða ÍR í heimsókn sama kvöld.

Fyrstu umferð lýkur föstudaginn 9. september þegar nýliðar Harðar mæta ÍBV í Vestmannaeyjum og FH og Stjarnan leiða saman hesta sína í Kaplakrika.

1. umferð Olísdeildar karla:
Fimmtudagur 8. september: Fram - Selfoss.
Fimmtudagur 8. september: Afturelding - Valur.
Fimmtudagur 8. september: Haukar - KA.
Fimmtudagur 8. september: Grótta - ÍR.
Föstudagur 9. september: ÍBV - Hörður.
Föstudagur 9. september: FH - Stjarnan.

Stefnt er á að ljúka 13 umferðum af 22 fyrir jól og að síðustu leikir ársins 2022 í Olísdeildinni fari fram laugardaginn 17. desember. Þráðurinn verður tekinn upp sunnudaginn 5. febrúar og stefnt að því að leikir síðustu umferðar verði háðir mánudaginn 10. apríl, á öðrum degi páska.


Nánar er hægt að skoða frumdrög að leikjadagskrá Olísdeildar karla hér.


a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -