- Auglýsing -

Tuttugu tæknifeilar er of mikið

Halldór Harri Kristjánsson þjálfari HK hættir þjálfun liðsins í vor. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

„Þetta er bara eins og gengur þegar allir eru ekki hundraðprósent með frá upphafi til enda. Við erum með fínan hóp og marga leikmenn sem geta leikið vel. Mér fannst margar svara kallinu að þessu sinni. Því miður vorum við með að minnsta kosti tuttugu tæknifeila og það er bara alltof mikið í einum leik,“ sagði Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari HK, eftir að lið hans tapaði með þriggja marka mun fyrir Stjörnunni í Olísdeild kvenna í TM-höllinni í gærkvöld, 27:24.


„Við byrjuðum leikinn illa en misstum hann þó aldrei úr höndum okkar. Framan af voru leikmenn alltof hlédrægir við að sækja á mark Stjörnunnar. Eftir leikhlé sem ég tók þá urðu leikmenn ákafari í sóknarleiknum. Leikurinn var í jafnvægi út hálfleikinn. Upphafskaflinn í síðari hálfleik var heldur ekki nógu góður og við lentum þremur mörkum undir á tímabili. Aftur náðum við okkur á strik og náðum að jafna metin, 19:19. Upp frá því gerðist eitt og annað sem erfitt er útskýra. Á lokakaflanum gátum við jafnað metin á nýjan leik en fjórir eða fimm tæknifeilar í seinni bylgju og hraðaupphlaupum fór með allar vonir okkar,“ sagði Harri við handbolta.is eftir tapið í TM-höllinni í gærkvöld.

Covid er engin afsökun

Kórónuveiran hefur sett mark sitt á HK-liðið undanfarnar vikur. Fyrir vikið var nokkrum leikjum liðsins frestað og framundan þétt leikjadagskrá. Harri vildi ekki skrifa tapið í gærkvöld á reikning covidsins. „Við erum með fjölmennan og góðan leikmannahóp sem hefur æft vel þótt þrjár til fjórar hafi vantað á æfingar á síðustu vikum þá er það engin afsökun,“ sagði Harri.

Bilið hefur breikkað

Flest stefnir í að HK verði í sjöunda sæti deildarinnar eitthvað áfram. Tapið í gær gerði að verkum að bilið á milli HK og næstu liða fyrir framan hefur breikkað. Harri tekur þeirri staðreynd af yfirvegun.


„Við horfðum til þess að geta náð ÍBV og Stjörnunni en þau lið hafa unnið upp á síðkastið meðan að ekki hefur gengið eins vel hjá okkur. Meðan enn er möguleiki þá berjumst við fyrir þeim. Þrátt fyrir stöðuna þá erum við ekki ósátt við það sem við erum að gera. HK-liðið er skipað ungum leikmönnum auk þess sem leikmenn eru fjarverandi vegna meiðsla og af öðrum ástæðum. Við erum að vinna úr þeirri stöðu sem er uppi,“ sagði Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari kvennaliðs HK.


Meðal leikmanna sem eru fjarverandi má nefna tvær landsliðskonur, Tinnu Sól Björgvinsdóttur og Sigríði Hauksdóttur auk Selmu Jóhannsdóttur markvarðar. Tinna Sól fékk höfuðhögg í október og er að jafna sig en Sigríður og Selma eru barnshafandi.

Stöðu og næstu leiki í Olísdeild kvenna má sjá hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -