- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tvenna í boði í Garðabæ

Rakel Dögg Bragadóttir þjálfari Stjörnunnar og leikmenn ráða ráðum sínum inni á leikvellinum. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

TM-höllin verður vettvangur kvöldsins í Olísdeildum karla og kvenna en þar verður boðið upp á tvo hörkuleiki. Annarsvegar mætast kvennalið Stjörnunnar og HK klukkan 17.45 og hinsvegar karlalið Stjörnunnar og Hauka klukkan 20.30.

Stjarnan hefur farið afar vel af stað í Olísdeild kvenna og hefur fullt hús stiga, fjögur, eftir leikina tvo sem að baki eru gegn FH á heimavelli og KA/Þór á Akureyri á síðasta laugardag. Markvörðurinn Heiðrún Dís Magnúsdóttir, fékk höfuðhögg í leiknum gegn KA/Þór og er óvíst að hún verði með í leiknum í kvöld. Stjarnan er hinsvegar ekki á flæðiskeri stödd með markverði því Hildur Einarsdóttir er tilbúin að standa vaktina eins og hún gerði vel gegn KA/Þór eftir að Heiðrún fór af leikvelli. Þá er Katrín Tinna Jensdóttir ekki orðin leikklár og verður utan hóps eins og í tveimur fyrstu leikjum Stjörnuliðsins í deildinni.

HK tapaði naumlega fyrir deildar,- og bikarmeisturum Fram í fyrstu umferð Olísdeildar kvenna, 25:24, og aftur á heimavelli fyrir ÍBV, 25:21, um síðustu helgi. Þá lék HK án Tinnu Sólar Björgvinsdóttur, sem nýlega var valin í landsliðshópinn. Hún mætir væntanlega aftur til leiks í kvöld og munar um minna þar sem Tinna er öflugur leikmaður á báðum endum leikvallarins.

Uppbyggingin tekur tíma

Eftir uppstokkun með ríflega tug nýrra leikmanna mun það taka sinn tíma fyrir Stjörnumenn að komast á skrið undir stjórn Patreks Jóhannessonar. Stjarnan tapaði naumlega fyrir Selfoss í fyrstu umferð á heimavelli og gerði síðan jafntefli við nýliða Gróttu í Hertz höllinni á Seltjarnarnesi í annarri umferð, 24:24.

Haukar lentu í basli í viðureign sinn við Gróttu í fyrstu umferð og sluppu naumlega fyrir horn með bæði stigin. Þeir voru hinsvegar hrikalega sannfærandi á heimavelli á móti ÍBV á síðasta laugardag og unnu afar öruggan sigur, 30:23.

Báðir leikir kvöldsins í TM-höllinni verða í beinni útsendingu á Stöð2sport.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -