U18: Gríðarlega stoltur af liðinu eftir sigurinn

Elín Klara Þorkelsdóttir lék vörn Svía oft grátt. Hér sendir hún boltann á Elísu Elíasdóttir. Mynd/IHF

„Ég er gríðarlega stoltur af liðinu eftir þennan frábæra sigur á Svíum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfari U18 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is eftir fimm marka sigur liðsins á Svíum, 22:17, í upphafsleiknum á heimsmeistaramótinu sem lauk rétt fyrir hádegið.


„Varnarleikurinn var feikilega öflugur frá upphafi til enda og eins markvarslan. Vinnan var mjög góð á liðinu. Þetta lagði grunn að mörgum hraðaupphlaupum en alls skoruðum við níu mörk eftir hraðaupphlaup og seinni bylgju.

Fagnað á hliðarlínunni. Mynd/IHF


Í fyrri hálfleik gerðum svolítið af mistökum í sóknarleiknum, fengum meðal annars á okkur nokkra ruðninga og köstuðum stundum boltanum frá okkur á einfaldan hátt. Við vissum vel að sænska liðið myndi leika mjög ákveðina sex núll vörn. Stúlkurnar voru yfirvegaðri í sókninni í síðari hálfleik en við hefðum kannski mátt nýta færin betur.


Heilt yfir er ég mjög sáttur með sigurinn og byrjunina á mótinu. Svíarnir eru með mjög hávaxið og öflugt lið. Stelpurnar sýndu mikla yfirvegun. Það ásamt frábærri liðsheild skóp sigurinn,“ sagði Ágúst Þór sem hefur nú sólarhring til þess að búa liðið undir næsta leik á mótinu sem verður við Svartfellinga á morgun.

Eru líkamlega sterkari

„Það er mikilvægt fyrir okkur að halda haus næsta sólarhringinn og búa okkur undir leikinn við Svartfellinga á morgun. Svartfellingar eru líkamlega sterkari en leikmenn sænska liðsins. Stúlkurnar verða að hvílast vel og hlaða rafhlöðurnar og mæta af fullum krafti í leikinn á morgun,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, annar þjálfari U18 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is eftir sigurinn glæsilega á Svíum á heimsmeistaramótinu í Norður Makedóníu.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -