U20: Færeyingar keyrðu yfir Pólverja

Færeyingar hafa staðið sig stórkostlega á EM U20 ára landsliða. Mynd/EHF

Færeysku piltarnir í U20 ára landsliðinu gefa ekkert eftir á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í Porto. Þeir gerðu sér lítið fyrir og unnu Pólverja örugglega í lokaleik sínum í milliriðlakeppni liðanna í neðri hluta mótsins, 38:32. Pólverjar fengu ekki rönd við reist í leiknum og voru átta mörkum undir í hálfleik, 19:11.


Slíkir voru yfirburðir færeyska liðsins að það gat leyft sér þann munað að láta helstu stjörnuna, Elias Ellefsen á Skipagøtu, kasta mæðinni á varamannabekknum síðustu mínútur leiksins.


Fyrr á mótinu hefur færeyska liðið unnið Dani og Norðmenn. Færeyingar eru í fyrsta sinn með í keppni 16 bestu landsliða Evrópu í þessum aldursflokki.


Með sigrinum er ljóst að færeyska liðið hafnar í öðru sæti í sínum milliriðli á eftir Slóvenum. Færeyingar leika þar með um níunda til tólfta sæti mótsins eins og íslenska landsliðið. Það mun skýrast síðar í dag hvort Færeyingar og Íslendingar mætast á föstudaginn í krosspili um sæti níu til tólf.


Pauli Jacobsen átti enn einn stórleikinn í færeyska markinu. Hann lauk leiknum með 40% hlutfallsmarkvörslu.


Mörkin skoruðu: Hákun West av Teigum 7, Óli Mittún 6, Sveinur Olafsson 6, Elias Ellefsen á Skipagøtu 4, Rói Ellefsen á Skipagøtu 4, Janus Dam Djurhuus 3, Bogi Hansen 2, Kristoffur Bjørgvin 1, Baldur Gillason 1, Sakir Frýdal 1, Viktor Gaini 1, Bjarni I Selvindi 1, Pauli Mittún 1.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -