U20: Getum enn náð markmiði okkar

Sæti í átta liða úrslitum EM er undir í viðureign íslenska landsliðsins við Þjóðverjar á EM í dag. Mynd/EHF

Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, þarf á sigri á halda gegn Þýskalandi í dag og um leið treysta á hagstæð úrslit í viðureign Serba og Ítala til þess að komast í átta liða úrslit á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Porto. Flautað verður til leiks í viðureign Íslands og Þýskalands klukkan 16.


Þjóðverjar unnu Evrópumót 19 ára og yngri fyrir ári. Þeir hafa unnið Ítali en tapað fyrir Serbum í D-riðli EM að þessu sinni. Á sama tíma og íslenska liðið hefur tapað fyrir Ítölum og gert jafntefli við Serba sem eru efstu í riðlinum fyrir lokaumferðina.


„Það er frábært að eiga tækifæri á sæti í átta liða úrslitum þrátt fyrir afar svekkjandi tap fyrir Ítalíu á föstudaginn,“ sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfara íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is.


„Við getum enn náð markmiði okkar um sæti í átta liða úrslitum. Eftir tapið fyrir Ítalíu á föstudaginn héldum við að möguleikinn á sæti í átta liða úrslitum væri úr greipum genginn.

Tókum gleði okkar á ný

Serbar sýndu hvað þeir eru öflugir með því að vinna Þjóðverja og opnuðu fyrir möguleika okkar á nýjan leik. Við gátum tekið gleði okkar á ný tveimur tímum eftir leikinn við Ítalíu og erum staðráðnir í að gera allt til þess að uppskera nú þegar tækifæri er á,“ sagði Einar Andri.

Hvað þarf að gerast?
- Til þess að komast áfram í átta liða úrslit verður íslenska liðið að vinna Þýskaland og treysta á að Serbar leggi Ítali. Þar með hrepptir Serbía efsta sætið með fimm stig og Ísland annað sæti með þrjú stig. Ítalía og Þýskaland enduðu þá með tvö stig hvort og tækju sæti í keppni um níunda til sextánda sæti mótsins.

- Ef Ísland vinnur Þýskaland og Ítalía og Serbía skilja jöfn þá verða Ísland og Ítalía jöfn með þrjú stig hvort. Ítalía fer þá áfram með Serbíu í átta liða úrslit á sigri í innbyrðisleik við íslenska liðið sl. föstudag.

- Eins er möguleiki á að Ísland fari áfram með sigri á Þýskalandi ef Ítalía vinnur Serba. Þá verða Íslendingar og Serbar jafnir að stigum og heildarmarkatala mun væntanlega ráða því hvort liðið fer áfram með ítalska landsliðinu sem tæki efsta sætið með fjögur stig.

Arnór bætist í hópinn

Arnór Viðarsson kemur inn í hópinn í dag eftir að hafa tekið út leikbann í viðureigninni við Ítalíu á föstudaginn. „Arnór er afar mikilvægur leikmaður í þessum hóp, ekki síst í vörninni,“ sagði Einar Andri sem getur þó ekki stillt upp 16 leikmönnum í dag þrátt fyrir að Eyjamaðurinn snúi til baka eftir leikbann.

Jóhannes Berg Andrason í þann mund að skjóta að marki Serba í leiknum á fimmtudaginn. Mynd/Jónas Árnason

Kraftaverk þarf til

Hverfandi líkur eru á að Jóhannes Berg Andrason verði með gegn Þjóðverjum. Hann er meiddur á mjöðm eftir að hafa fengið tvö þung högg í síðustu leikjum. „Jóhannes er mjög bólginn. Ég held að kraftaverk þurfi til að hann verði með okkur,“ sagði Einar Andri.


„Við látum það ekki slá okkur út af laginu. Við erum með flott lið og nægan mannskap. Maður kemur í manns stað.“

Ólíkir sjálfum okkur

Einar Andri segir að viðureignin við Ítalíu á föstudaginn, sem tapaðist 27:26, hafi verið einn þeirra leikja þar sem fátt gengur upp.

„Í dag verðum við að laga margt frá þeim leik enda vorum við ólíkir sjálfum okkur. Síðan í mars og þangað til við komum til Porto vorum við búnir að spila fimm leiki og aðeins tapað einum. Spilamennskan var virkilega góð og útlitið var gott. Þess vegna kom frammistaðan gegn Ítalíu okkur á óvart. Hún var ekki í nokkru samræmi við það sem við ætlumst til af okkur þótt vissulega séu Ítalir með gott lið sem er í framför,“ sagði Einar Andri sem hefur unnið vel með sínum mönnum við að greina það sem miður fór svo að allir verði á sömu slóðum þegar flautað verður til leiks við Þjóðverja í dag.

Handbolti.is verður á vaktinni

Sem fyrr segir hefst viðureign Íslands og Þýskalands klukkan 16. Fylgst verður með leiknum í textalýsingu á handbolta.is eins og fyrri viðureignum Íslands á mótinu.


Klukkan 18.30 byrjar leikur Serba og Ítala en úrslit þess leiks skipta miklu máli ef íslensku piltunum tekst að leggja Þjóðverja.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -