Úrslitin réðust í framlengingu á umdeildu vítakasti

Lið Neistans í Þórshöfn sem lék til úrslita í bikarkeppninni á síðasta keppnistímabili. Arnar Gunnarsson þjálfari er annar frá hægri í efri röð. Mynd/FB-síða Neistans

Arnar Gunnarsson og lærisveinar hans í Neistanum töpuðu fyrir H71 með eins marks mun, 26:25, í framlengdum úrslitaleik í færeysku bikarkeppninni í handknattleik karla í Þórshöfn í gærkvöld. Djóni Gaard Joensen skoraði sigurmark H71 úr vítakasti þegar 12 sekúndur voru til leiksloka og þótti sá dómur afar vafasamur.

Neistamenn hófu leikinn illa. Leikmenn H71 skoruðu fimm fyrstu mörk leiksins áður en spennan rann aðeins af leikmönnum Neistans sem tókst að laga aðeins stöðu. Aðeins munaði tveimur mörkum í hálfleik, 13:11.

H71 hóf síðari hálfleik betur og var yfir, 17:14, áður en Neistin svaraði með fimm mörkum í röð og komst tveimur mörkum yfir, 19:17. Eftir það var jafnt á öllum tölum til loka venjulegs leiktíma þegar staðan var 22:22.

Ekki dró úr spennunni í framlengingunni þar sem leikmenn H71 höfðu betur eins og áður sagði og unnu eftir að hafa skorað úr vítakasti sem var dæmt á afar hæpnum forsendum. Sannkallaður naglbítur eins og stundum er sagt.


Þetta var annað árið í röð sem H71 verður bikarmeistari í karlaflokki og í fimmta sinn á síðustu sex árum.

H71 og Neistin mættust einnig í úrslitaleiknum í kvennaflokki. H71 hafði betur, 22:20. Neistin komst nokkuð óvænt í úrslit eftir að hafa lagt Kyndil í undanúrslitum en Kyndilsliðið er efst í úrvalsdeildinni.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -