- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valsmenn léku lausum hala

Mynd/Valur
- Auglýsing -

Valur tyllti sér á topp Olísdeildar karla með afar öruggum sigri á ÍR, 43:24, í Origohöllinni á Hlíðarenda í kvöld. Mikill getumunur var á liðunum og kannski kom hér skýrt í ljós hversu mikill munurinn er á milli bestu liða deildarinnar og þeirra slökustu. Sex mörk skildu liðin að eftir fyrri hálfleik, 20:14.


Valur hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni og sitja á toppnum. ÍR-liðið rekur hinsvegar lestina án stiga eins og Þór Akureyri. Sé tekið mið af leik ÍR í dag gæti verið langt í fyrstu stig liðsins. Frammistaðan var ekki í takti við leik liðsins gegn ÍBV í fyrstu umferð þar sem barátta var þó í hópnum.


Valsmenn notuðu leikinn til að spila sig saman og gekk að mörgu leyti vel og reynsluminni leikmenn fengu að láta ljós sitt skína.


Mikill munur var á liðum Vals og ÍR og segja má að ljóst hafi verið strax eftir um tíu mínútur að ekki væri ástæða til þess að vonast eftir spennandi leik. Varnarleikur ÍR var í molum frá upphafi og sóknarleikurinn var ekkert sérstakur. Baráttugleðin sem var í vörn ÍR í viðureigninni við ÍBV í fyrstu umferð var víðsfjarri.

Að loknum tíu mínútum var forskot Vals komið í sjö mörk, 9:2. Þótt sóknarleikur gestanna skánaði þegar á leið hálfleikinn var varnarleikurinn áfram afar götóttur þannig að leikmenn Vals skoruðu að vild. Agnar Smári Jónsson fór á kostum, einkum framan af. Kunni hann því vel að fá tækifæri til að leika lausum hala.


Að loknum fyrri hálfleik var staðan, 20:14, Val í vil og í raun voru Valsmenn klaufar að hafa ekki skorað amk 25 mörk í hálfleiknum.

Ekki stóð steinn yfir steini hjá ÍR-ingum í síðari hálfleik. Varnarleikurinn var í sama fari og áður og sóknarleikurinn afar mistækur. Skarð var vissulega fyrir skildi hjá Breiðahyltingum að Úlfur Kjartansson var ekki með vegna meiðsla en hann er öflugur varnarmaður.


Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var 12 marka munur orðinn á liðunum, 33:21. Úrslitin voru löngu ráðin.

Valsmenn keyrðu á fullri ferð nær allan leikinn sem var að mörgu leyti eins og kærkominn æfingaleikur fyrir átökin á laugardaginn eftir viku þegar þeir sækja ÍBV heim til Eyja.


Agnar Smári Jónsson var markhæstur hjá Val með 8 mörk, Anton Rúnarsson skoraði 7 og Magnús Óli Magnússon og Vignir Stefánsson 6 mörk hvor.
Hrannar Ingi Jóhannsson skoraði 8 mörk fyrir ÍR og Gunnar Valdimar Johnsen 6.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -