- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur hélt sjó og fer með vinning til Hafnarfjarðar

Saga Sif Gísladóttir lék afar vel í dag í fyrsta undanúrslitaleiknum við Hauka.Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Valur er kominn yfir gegn Haukum í rimmu þeirra í úrslitakeppni Olísdeildar kvenna í handknattleik eftir sex marka sigur, 25:19, í Origohöllinni í dag. Valur var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Næsti leikur liðanna verður í Schenkerhöll Hauka á sunnudaginn og getur Valur þar með sigri tryggt sér sæti í undanúrslitum. Varnarleikur Vals reyndist Haukum þrautin þyngri auk þess sem Saga Sif Gísladóttir fór á kostum í marki Vals.

Valur hóf leikinn í dag mikið betur en Haukar. Varnarleikurinn var góður og markvarslan til fyrirmyndar. Haukar áttu í mestu erfiðleikum, ekki síst í sókninni. Valur var kominn með sex marka forskot og vænlega stöðu þegar tíu mínútur voru til hálfleiks, 12:6.

Slakur sóknarleikur Vals með nokkrum slæmum ákvörðunum gerði að verkum að Haukar fengu tækifæri til að komast inn í leikinn á ný. Elín Klara Þorkelsdóttir kom inn í stöðu leikstjórnanda. Hún náði að koma meiri hreyfingu á Valsvörnina og búa til skotfæri fyrir Söru Odden. Þetta skilaði árangri og Valur var aðeins tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11.


Eldmessa Ágústs Þórs Jóhannssonar, þjálfara Vals, virðist hafa hrifið því allt annað upplit var á leikmönnum Vals á upphafsmínútum síðari hálfleiks en í lokakafla þess fyrri. Vörnin var afar góð með Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur í aðalhlutverki. Haukum gekk illa að finna opnanir. Eftir tíu mínútur var munurinn orðinn fimm mörk, 17:12.

Leikmenn Hauka sýndu áfram ítrustu þolinmæði í sóknarleiknum þótt illa gengi. Þeim vegnaði hinsvegar illa að koma böndum yfir landsliðskonuna Theu Imani Stuludóttur sem lék við hvern sinn fingur í sóknarleiknum.
Áhrif eldmessunnar rénuðu þegar á leið hálfleikinn og það átti ekki fyrir Val að liggja að halda góðu forskoti og byggja ofan á það. Illa gekk að nýta tækifærin sem buðust.


Þolinmæðin var fyrir hendi hjá Haukum. Valur fór á ný illa að ráði sínu í sókninni. Tvö hraðaupphlaup og eitt vítakast fóru í súginn og Haukar fengu þrjú tækifæri í stöðunni 20:17 til að minnka muninn í eitt mark en tókst ekki að nýta. Eins og oft vill verða buðust þau tækifæri ekki aftur og við tóku nokkuð margar markalausar mínútur á báða bóga þar til Lilja Ágústsdóttir skoraði örugglega, 21:17, þegar rúmar fimm mínútu voru til leiksloka og ljóst í hvað stefndi.


Saga Sif Gísladóttir var besti leikmaður Vals í leiknum. Hún varði jafnt og þétt frá upphafi til enda og alls 14 skot þegar upp var staðið, 42,4%.


Mörk Vals: Thea Imani Sturludóttir 8, Lovísa Thompson 7, Elín Rósa Magnúsdóttir 4, Auður Ester Gestsdóttir 3, Lilja Ágústsdóttir 2/1, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 14, 42,4%.
Mörk Hauka: Sara Odden 7, Berta Rut Harðardóttir 4/2, Elína Klara Þorkelsdóttir 3, Karen Helga Díönudóttir 3, Hekla Rún Ámundadóttir 1, Ragnheiður Ragnarsdóttir 1.
Varin skot: Annika Friðheim Petersen 11/1, 30,6%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -