- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur með fjögurra marka forskot eftir fyrri leikinn

Tryggvi Garðar Jónsson sækir að vörn Hauka í Meistarakeppni HSÍ í haust. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Valsmenn standa ágætlega eftir fjögurra marka sigur, 22:18, á RK Porec í fyrri viðureigninni í 1. umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik karla í Porec í Króatíu í dag. Þrátt fyrir mikla erfiðleika í sóknarleiknum í síðari hálfleik þá tókst Val standa af sér áhlaup liðsmanna Porec. Eftir sjö marka forskot, 15:8, að loknum fyrri hálfleik misstu leikmenn Vals forystu sína niður í tvö mörk tíu mínútum fyrir leikslok.


Liðin mætast öðru sinni á morgun og verður flautað til leiks klukkan 16. Eflaust verður hægt að fylgjast með viðureigninni á youtube eins og í dag.
Nokkurrar óvissu gætti meðal Valsmanna á því hver væri styrkleiki liðs RK Porec. Fljótlega kom í ljós að strengirnir voru ekki vel stilltir hjá heimamönnum. Þeim gekk afleitlega í sóknarleiknum gegn ágætri vörn Valsmanna. Valur skorði fimm fyrstu mörk leiksins. Heimamenn komust fyrst á blað eftir liðlega tíu mínútur í fremur dauflegri stemningu í íþróttahöllinni í Porec með fáum áhorfendum.


Eftir stundarfjórðung var Valur með sex marka forskot, 10:4. Munurinn hélst allt til loka fyrri hálfleiks. Að honum loknum var staðan, 15:8. Björgvin Páll Gústavsson var öflugur í marki Valsara og var með 40% hlutfallsmarkvörslu í fyrri hálfleik.


Hálfleikshléið gerði heimamönnum gott. Þeir mættu mun upplitsdjarfari til síðari hálfleiks. Sóknir þeirra lengdust og varnarleikurinn styrktist við það að menn færðust nær því alveg aftur á línuna. Valsmenn fengu færri hraðaupphlaup en í fyrri hálfleik og gekk verr en áður að opna vörn andstæðingsins.


RK Porec tókst að minnka muninn niður í þrjú mörk, 16:13, eftir tæplega sjö mínútur.


Sóknarleikur Vals gekk fremur illa lengst af í síðari hálfleik og fyrstu 20 mínúturnar skoraði liðið aðeins fimm mörk. RK Porec-liðið minnkaði muninn í tvö mörk, 20:18, þegar sléttar tíu mínútur voru til leiksloka og meiri spenna hljóp í leikinn. Upp úr því fengu leikmenn RK Porec tvisvar sinnum möguleika á að minnka muninn í eitt mark. Þeim varð ekki kápan úr því klæðinu. Nær komust leikmenn RK Porec ekki.


Mörk Vals: Tumi Steinn Rúnarsson 5, Benedikt Gunnar Óskarsson 3, Magnús Óli Magnússon 3, Finnur Ingi Stefánsson 2, Agnar Smári Jónsson 2, Einar Þorsteinn Ólafsson 2, Þorgils Jón Svölu Baldursson 2, Þorgeir Bjarki Davíðsson 2, Arnór Snær Óskarsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 9, 39%.

Japanski markvörðurinn, Motoki Sakai, var í fyrsta sinn í liði Vals að þessu sinni. Hann fékk leikheimild á þriðjudagskvöld. Sakai leysti Björgvin Pál af þegar tæplega 20 mínútur voru til leiksloka. Björgvin Páll kom aftur til leiks þegar á leið varði þrjú afar mikilvæg skot á síðustu mínútunum, þar á meðal vítakast.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -