- Auglýsing -

Var nánast eins og hryllingssaga,

Arnar Daði Arnarsson, fráfarandi þjálfari karlaliðs Gróttu. Gróttu. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

„Það var bara ömurlegt að tapa leiknum,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, eftir tveggja marka tap fyrir Fram í 14. umferð Olísdeildarinnar í handknattleik í Framhúsinu í kvöld. Við tapið dróst Gróttuliðið fimm stigum aftur úr Fram, KA og Aftureldingu sem eru í sjöunda til níunda sæti.


„Hvernig við töpuðum leiknum er einn kafli og annar kafli er svo hversu mikilvægur leikurinn var. Þriðji kaflinn var svo hvernig leikurinn þróaðist. Okkur tókst hvað eftir að annað að minnka muninn í síðari hálfleik en náðum aldrei að jafna metin þrátt fyrir að færin hafi ekki vantað. Þetta var nánast eins og hryllingssaga,“ sagði Arnar Daði og var að vonum vonsvikinn því hans menn fóru á tíðum illa að ráði sínu, jafnt í fyrri sem seinni hálfleik. Fram var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 16:12.

Tveimur færri var boltanum stolið

„Færanýtingin í fyrri hálfleik varð þess valdandi að við lentum fjórum mörkum undir. Á kafla undir lok hálfleiksins vorum við tveimur fleiri og gátum minnkað muninn í eitt mark. Þess í stað létum við Framara stela af okkur boltanum og skora eftir hraðaupphlaup. Við hefðum getað verið tíu mörkum undir í hálfleik og hugsanlega einu. Sveiflurnar voru slíkar í leik okkar,“ sagði Arnar Daði sem var afar vonsvikinn yfir að ekki skyldi takast betur til en raun bar vitni.


„Við vorum vel undir leikinn búnir. Það eru veikleikar í liði Fram sem okkur tókst ekki að nýta okkur þrátt fyrir að hafa þekkt þá. Ofan á annað þá reyndist okkur á tíðum ómögulegt að skora hjá Lalla í markinu [Lárus Helgi Ólafsson markvörður Fram].


Það er hræðilegt fyrir okkur að tapa í tvígang mjög naumlega fyrir Fram, lið sem er á svipuðum slóðum og við í deildinni. Þessi stig sem við töpuðum voru rándýr. Ekki þarf að fara í grafgötur með það. Við erum því miður sjálfum okkur verstir í kapphlaupinu um að ná níunda sætinu,“ sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í samtali við handbolta.is í Safamýri í kvöld.

Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild karla má sjá hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -