- Auglýsing -
- Auglýsing -

Varð strax mjög áhugasamur

Bjarki Már Elísson, leikmaður Lemgo og íslenska landsliðsins í handknattleik. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Áður en Veszprém kom inn í myndina hafði borið á áhuga frá liðum sem eru á svipuðu róli. Þau heilluðu mig ekki. Um leið og Veszprém kom að borðinu þá varð ég strax áhugasamur,“ sagði Bjarki Már Elísson landsliðsmaður og leikmaður Lemgo um vistaskiptin sem standa fyrir dyrum hjá honum í sumar.


Bjarki Már flytur til Veszprém við Balatonvatn í Ungverjalandi í sumar en í síðasta mánuði var greint frá tveggja ára samningi hans við ungverska stórliðið. Eftir níu ár í Þýskalandi er komið að talsverðum breytingum, flutningum í nýtt land og annað tugumál auk þess sem Veszprém hefur verið eitt öflugasta félagslið í handknattleik karla um langt árabil.

Ekki lengi að hnýta alla enda

„Eftir að Veszprém komst í samband við mig og umboðsmann minn þá gengu hlutirnir nokkuð hratt fyrir sig. Við vorum ekki lengi að hnýta alla enda,“ sagði Bjarki Már þegar handbolti.is hitti hann í vikunni fyrir eina af æfingum íslenska landsliðsins hér á landi þessa dagana.

Bjarki Már rabbaði m.a. við Aron Pálmarsson áður en hann samdi við ungverska liðið. Aron er eini íslenski handknattleiksmaðurinn sem leikið hefur með Veszprém. Aron var í herbúðum liðsins frá 2015 til 2017.

Bar félaginu, landi og þjóð góða sögu

„Aron bar félaginu og landinu góða sögu sem varð síst til að draga úr áhuga mínum. Aron lék einnig á sínum tíma með núverandi þjálfara Veszprém, Momir Ilic,“ sagði Bjarki Már sem taldi tíma vera kominn til að breyta til.

Tími kominn á breytingar

„Ég hef verið í níu ár í Þýskalandi og hef ekki verið í liðum sem hafa verið að berjast um meistaratitlana. Persónulega hefur gengið vel en engu að síður finnst mér tími vera kominn til að skipta um umhverfi og takast á við nýja áskorun í öðru umhverfi og koma í veg fyrir stöðnun,“ sagði Bjarki Már.

Spennandi að leika í Meistaradeildinni

„Það verður svolítið frábrugðið að leika með Veszprém eftir að hafa verið hjá Lemgo. Munur er á leik liðanna auk þess sem Veszprém er að berjast um meistaratitla á hverju ári, jafnt í heimalandinu sem og í Meistaradeild Evrópu þar sem liðið hefur oftar en ekki verið í undanúrslitum á síðustu árum,“ sagði Bjarki.


„Eitt það sem heillaði mig hvað mest við að komast til Veszrpém er að fá tækifæri til að leika í Meistaradeild Evrópu. Það hef ég ekki reynt fram til þessa á ferlinum,“ sagði Bjarki Már Elísson.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -