Varð strax mjög áhugasamur

Sveinn Jóhannsson hefur samið við Skjern til eins árs. Mynd/Ívar

„Nú er komið að þeim tíma á ferlinum að ég stígi skrefið yfir til Þýskalands og reyni fyrir mér í stærstu og sterkustu deild heims. Ég hlakka mjög mikið til,“ sagði Sveinn Jóhannsson, línumaður SønderjyskE í Danmörku, við handbolta.is í morgun eftir að tilkynnt var að hann gangi til liðs við þýska 1. deildarliðið HC Erlangen upp úr miðju næsta ári. Sveinn hefur skrifað undir tveggja ára samning við Nürnbergliðið.


„Ég varð strax mjög áhugasamur þegar ég heyrði af áhuga Erlangen. Tækifærið er stórt og ljóst að ef ég stend mig þá fæ ég strax mjög stórt hlutverk,“ sagði Sveinn sem er ætlað að leysa norska línumanninn Petter Øverby sem flytur til THW Kiel.

HC Erlangen er með bækistöðvar í Nürnberg og leikur heimaleiki sína í Arena Nürnberger Versicherung sem rúmar 8.300 áhorfendur í sæti.  Nürnberg er næst fjölmennasta borg Bæjaralands með ríflega hálfa milljón íbúa. 
Sveinn verður annar Íslendingurinn til að leika með HC Erlangen. Sigurbergur Sveinsson var í herbúðum félagsins 2014 til 2015. Til viðbótar var Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari Erlangen frá 2017 - 2020. Aðalsteinn Eyjólfsson var þjálfari HC Erlangen frá 2017 til 2020.

Krefjandi verkefni

„Mér líst vel á að takast við krefjandi verkefni í hörkudeild. Ég vil sýna mig og sanna og leggja mitt lóð á vogarskálarnar svo liðið nái sínum markmiðum. Til viðbótar verður gaman að kynnast þýskri handboltamenningu.

Metnaður minn og áhugi hefur legið til þess að ná langt í handboltanum. Þetta skref er einn áfangi á þeirri leið,“ sagði Sveinn sem er 22 ár gamallog á að baki 10 landsleiki. Hann er í 35 manna hópnum sem valinn var fyrir Evrópumeistaramótið sem fram fer í næsta mánuði í Ungverjalandi og Slóvakíu.

Fjölnismaður að upplagi

Sveinn er hálfnaður með þriðja keppnistímabilið hjá SønderjyskE á suðurhluta Jótlands í Danmörku. Til félagsins kom hann eftir eins árs veru hjá ÍR en Sveinn er Fjölnismaður að upplagi og lék með yngri flokkum félagsins og alveg upp í meistaraflokk.


Sveinn segist hafa undirbúið vistaskiptin m.a. með því að heyra í félögum sínum sem hafa reynslu af því að leika í Þýskalandi. „Það er mjög fínt að nýta reynslu annarra svo maður viti aðeins út í hvað maður er að fara.“

HC Erlangen vann sér sæti í fyrsta sinn í þýsku 1. deildinni árið 2014 en féll í 2. deild vorið 2015. Liðið staldraði við í eitt tímabil í 2. deild og lék á ný í 1. deild 2016/2017 og hefur verið þar síðan. Síðan hefur HC Erlangen hafnað í níunda til 14. sæti og varð til að mynda í 13. sæti á síðasta keppnistímabili. Um þessar mundir situr Erlangen í 12. sæti af 18 liðum með 12 stig að loknum 15 leikjum.

Þjálfaraskipti

SønderjyskE hefur ekki vegnað sem best það sem af er leiktíðar. Með von um að hressa upp á leik liðsins var skipt um þjálfara í síðasta mánuði. Klavs Bruun Jørgensen tók þjálfun af Jan Pytlick. Sveinn segir að liðið hafi farið vel af stað eftir þjálfaraskiptin en mikil vinna sé framundan á síðari helmingi deildarkeppninnar að snúa vörn í sókn og komast ofar í stöðutöflunni.

Í kvöld sækir SønderjyskE Ágúst Elí Björgvinsson og félaga í KIF Kolding heim en Kolding leysti þjálfara sinn frá störfum á mánudaginn.


„Nú er einbeiting á að að komast inn á beinu brautina með SønderjyskE og klifra ofar og ná sæmilegu sæti fyrir úrslitakeppnina.

Stefnir á EM-hópinn

Til viðbótar þá er það ekkert launungarmál að ég stefni á að komast í EM-hópinn og vera í hlutverki með landsliðinu á mótinu,“ sagði Sveinn Jóhannsson sem býr sig nú af kappi undir leikinn við Kolding á útivelli í kvöld.


a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -