- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verðum að horfa raunsæjum augum til vetrarins

Víkingar verða hafna í öðru sæti í Grill 66-deildinni. Mynd/Víkingur - Finnbogi Sigur Marinósson
- Auglýsing -

Jón Gunnlaugur Viggósson tók við þjálfun meistraraflokksliðs Víkings í karlaflokki í sumar. Liðið hefur farið ágætlega af stað í Grill 66-deildinni, unnið tvo leiki en tapað einum. Hann segir í samtali við handbolta.is að menn verði að vera raunhæfir þegar kemur að kröfum á liðið á þessari leiktíð. Það eigi í raun og veru um þær kröfur sem gerðar séu til beggja meistaraflokksliðanna því kvennalið Víkings leikur einnig í Grill-deildinni. Þar eru innanborðs ungir leikmenn sem verði að vinna að framförum stig af stigi. 

„Við verðum að horfa svolítið raunsætt á verkefni meistaraflokkanna okkar. Bæði karla- og kvennaliðið enduðu í neðstu sætum af aðalliðum í deildarkeppninni í fyrra og ljóst að þar er mikið verk að vinna. Það er engin ástæða til að leggjast í skotgrafir þegar rætt er um það. Enginn leikmaður, hvorki í karla né kvennaliðinu þiggur laun fyrir að spila hjá okkur núna í ár,“ segir Jón Gunnlaugur. 

Góð blanda af yngri og eldri

„Varðandi karlaliðið þá teljum við okkur hafa skemmtilega blöndu af ungum og reyndari leikmönnum. Við bættum fáum en góðum leikmönnum við okkur fyrir tímabilið. Styrmi Sigurðarsyni, Erni Inga Bjarkasyni, hinum uppalda Víkingi Bjarka Garðarsyni og núna nýverið kom Egidijus Mikalonis til okkar. Það má svo ekki gleyma Andra Berg sem er í þjálfarateyminu með mér og smellur eins og flís við rass við þá handboltahugsun sem ég hef. Við erum að móta liðið sem og framtíðina.  

Örn mun reyndar ekki spila með okkur strax enda töluvert síðan hann lék seinast. Við flýtum okkur hægt en það er svo sem aldrei að vita hvenær hann mætir á parketið í búningnum. Það búa til mikil gæði í þessum leikmönnum og munu þeir hjálpa okkur gríðarlega í vetur,“ segir Jón Gunnlaugur sem hengir ekki haus þrátt fyrir slæmt tap fyrir HK í síðustu umferð um liðna helgi. 

Geta verið sveiflur

„Það var alveg viðbúið að við myndum tapa leikjum í vetur og með unga leikmenn í lykilhlutverki er nokkuð ljóst að við getum verið svolítið jójó. Ég hef verið gríðarlega ánægður með strákana hingað til og þetta vonda tap í seinustu umferð breytir engu þar um. 

Við erum með 17-18 ára stráka í lykilhlutverkum hjá okkur og ljóst að þeir munu þurfa að þroskast hratt enda reynir svona hlutverk á bæði andlega og líkamlega þáttinn. Þeir hafa hinsvegar sýnt gæði, bæði varnar- og sóknarlega svo ég lít mjög björtum augum á tímabilið og það sem koma skal.“  

Logi Snædal Jónsson sækir að vörn Hauka í viðureign liðanna á dögunum. Mynd/Víkingur Finnbogi Sigur Marinósson

Öflugt starf í yngri flokkum

„Það eru í raun fjölmargir ungir strákar sem eru að koma upp í gegnum yngri flokkastarfið sem bíða í röðum eftir að fá sitt tækifæri, en þeir munu þurfa að berja sér leið inn í hópinn og fá þá um leið verðskuldaðar mínútur – það á ekki og verður ekkert gefins. Meðalaldurinn í æfingahópnum okkar í meistaraflokki er rétt um 20 ár,“ segir Jón Gunnlaugur ennfremur og bætir við. 

Berjumst fyrir hverju stigi

„Það ætla sér öll lið upp í Olísdeildina en að stara á toppinn á þessu stigi gerir ekki mikið fyrir okkur. Við þurfum að taka fjölmörg skref áður en það verður að veruleika. Liðið endaði í sjöunda sæti í Grill-deildinni í fyrra og er spáð því sama í ár. Við mætum í hvern leik til að sigra en við þurfum að halda áfram að leggja líf og sál í þetta verkefni og berjast fyrir hverju stigi, öðruvísi koma þau ekkert til okkar. “ 

Fjölmennasti 3. flokkur um árabil

Stór hópur yngri leikmanna er innan raða Víkings og þess vegna var ákveðið að halda úti U-liði í 2. deild til að koma til móts við sem flesta og freista þess að halda betur utan um hópinn. 

„Við erum með 28 leikmenn í þriðja flokki karla sem er líklega fjölmennasti þriðji flokkur sem Víkingur hefur átt í áratugi. U-liðið mun gefa ungum leikmönnum tækifæri til að efla sig á vellinum og spila gegn góðum andstæðingum. 

Um leið er mikilvægt að eldri leikmenn geri sér grein fyrir þeirra hlutverki, stíga upp þegar á þarf að halda bæði innan og utan vallar. Við erum með marga mjög flotta leikmenn sem hafa verið í boltanum í töluverðan tíma. Ég tel alla vegi færa fyrir okkur,“ segir Jón Gunnlaugur ákveðinn. 

Ester Inga Ögmundsdóttir skorar mark í leik við ÍR. Mynd/Víkingur – Finnbogi Sigur Marinósson

Efla starfið í stúlknaflokkum

Kvennalið Víkings hefur ekki fengið stig í fyrstu tveimur umferðunum. Það skyggir kannski á flotta kafla sem liðið hefur sýnt í leikjum sínum til þessa, segir Jón Gunnlaugur og bendir að að uppeldisstarfið hafi ekki skilað mörgum leikmönnum upp í meistararflokk á síðustu árum. 

„Við leggjum mikla áherslu á að breyta því. Við höldum loksins úti starfi í öllum yngri flokkum kvennamegin. Þeir leikmenn sem komið hafa upp hafa heldur betur skilað sínu í erfiðu umhverfi. Kvennaliðið bætti við sig mjög flottum leikmönnum í sumar sem hafa gæði sem munu hjálpa okkur að komast á hærri stall. Það má ekkert gleyma því að kvennaliðið vann ekki leik í fyrra. Fyrsta skref er væntanlega að fá stig og þurfa stelpurnar virkilega að berjast fyrir því. Um leið og þetta fyrsta stig er komið þá er ég ekki í vafa um að boltinn muni rúlla ansi hresslega af stað hjá þeim. 

Við munum vonandi strax á næsta ári stofna U-lið fyrir stelpurnar og um leið verður vonandi 2.deild kvenna sett á laggirnar. Slíkt gefur stelpunum tækifæri á að fá góðar mínútur í alvöru leikjum og þroskast inn á vellinum,“ segir Jón Gunnlaugur Viggósson, yfirþjálfari hjá Víkingi og þjálfari meistaraflokkslið karla. 

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -