- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verðum að nýta næstu 20 daga mjög vel

Rakel Dögg Bragadóttir þjálfari Stjörnunnar og leikmenn ráða ráðum sínum inni á leikvellinum. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Stjarnan tapaði sínum fjórða leik í röð í Olísdeild kvenna í gærkvöld þegar liðið sótti Fram heim í Safamýri, 29:19. Stjarnan situr í sjötta sæti með 10 stig og er aðeins stigi á undan HK sem á leik til góða á Garðabæjarliðið. Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Stjörnunnar, dró ekki dul á í samtali við handbolta.is eftir leikinn í gærkvöld að staða liðsins væri erfið og fara þurfi vel yfir málin á næstu 20 dögum meðan hlé stendur yfir frá keppni í Olísdeildinni. Tveir síðustu leikirnir sem eftir væru í Olísdeildinni væru úrslitaleikir fyrir Stjörnuna.


„Því miður höfum við ekki náð fram nóg góðum leikjum upp á síðkastið auk þess sem þeir hafa tapast. Staðan okkar er erfið. Á því leikur enginn vafi. Það eru aðeins tveir leikir eftir af deildarkeppninni og þeir verða okkur afar mikilvægir,“ sagði Rakel Dögg. Leikirnir tveir verða gegn ÍBV í TM-höllinni og á móti Haukum í Schenkerhöllinni á Ásvöllum.

Erum með betra lið en þetta

„Við erum svo sannarlega með betra lið en raun bar vitni í kvöld. Þótt Fram sé með langbesta liðið í deildinni þá er það alveg staðreynd að við eigum ekki að tapa með tíu marka mun.


Við þurfum meðal annars að vinna mikið betur í varnarleiknum, það er alveg ljóst. Leik eftir leik fáum við alltof mörg mörk á okkur. Sannarlega brást sóknarleikurinn að þessu sinni og við skorum aðeins 19 mörk en við lékum okkur í færin og klikkuðum á að minnsta kosti tíu dauðafærum og fjórum vítaköstum. Eins fóru hraðaupphlaup í súginn og síðan nýttum við ekki þá stöðu að vera manni fleiri. Allt er þetta mjög dýrt, ekki síst gegn Fram sem var með 50% markvörslu.“

Vantar tengingu

„Engu að síður var varnarleikurinn á köflum í lagi en því miður þá tókst okkur ekki að tengja saman vörn og markvörslu. Baráttan var í lagi sem var til bóta. Okkur tókst að hlaupa vel til baka og koma þar með í veg fyrir að Fram rúllaði yfir okkur í hraðaupphlaupum.


Við erum með góðan hóp og höfum náð að sýna frábæran handbolta á köflum í vetur. Næstu 20 daga verðum við að vinna af krafti og metnaði, bæta varnarleikinn og markvörsluna. Eftir leikinn í dag þá verðum við kannski einnig að fara á skotæfingu,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Stjörnunnar í samtali við handbolta.is í Safamýri í gærkvöld.

Staðan í Olísdeild kvenna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -