- Auglýsing -

Verðum að vera búin undir eitt og annað

Íslandsmeistarar KA/Þórs sækja Val heim í undanúrslitum. Liðin léku til úrslita á síðasta ári.

Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs fóru til Alicante á Spáni í morgun þar sem liðsins bíða tvær viðureignir við spænsku bikarmeistarana, BM Elche, á laugardag og sunnudag í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik. Með í för er einnig nokkur hópur stuðningsmanna liðsins enda eru margir til að sjá hærri tölur á hitamælinum, eins og Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs orðaði það í samtali við handbolta.is.


„Elche er með hörkulið sem er í sjöunda sæti spænsku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir. Hér er um að ræða talsvert sterkara lið en það sem við mættum í síðustu umferð keppninnar,“ sagði Andri Snær sem hefur kynnt sér leik spænska liðsins sem er frá bænum Elche í nágrenni Alicante.

Fjölbreytni í fyrirrúmi

„Auk spænskra leikmanna hefur liðið á að skipa landsliðskonum frá Rússlandi, Argentínu og Brasilíu. Leikmenn eru stórir og sterkir og virðast afar vel þjálfaðir. Svo er að sjá að mikil áhersla sé lögð á að leika sjö á sex í sókninni. Eins hefur liðið á að skipa nokkrum mismunandi varnarafbrigðum. Af þessu leiðir að við verðum að vera búin undir eitt og annað, jafnt í vörn sem sókn,“ sagði Andri Snær sem reiknar með að KA/Þórsliðið nái léttri æfingu á leikstað í kvöld og annarri hefðbundnari æfingu á morgun. Báðir leikir verða snemma dags um helgina, eða klukkan 11 að íslenskum tíma.

Tel okkur eiga möguleika

„Þetta verður hörkuverkefni en ég sé hinsvegar talsverða möguleika fyrir okkur. Ekki síst ef við náum að leika okkar bolta á þeim hraða sem hentar okkur best þá tel ég okkur geta átt góða möguleika á móti þessu liði. Þess utan þá verður það mikilvæg reynsla fyrir okkur að takast á við nýjan og óþekktan mótherja,“ sagði Andri Snær ennfremur.

Leikmenn fjarverandi

KA/Þór verður án þriggja leikmanna í leikjunum ytra. Hornamaðurinn Katrín Vilhjálmsdóttir fór ekki með. Hún hefur æft með liðinu af krafti síðustu vikur og mánuði eftir barnsburð en kaus að verða eftir heim. Annar hornamaður, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir, varð fyrir því óhappi á æfingu á mánudaginn að verða fyrir höfuðhöggi og verður að taka því rólega um skeið enda því miður ekki í fyrsta sinn sem hún verður fyrir þessu. Júlía Sóley Björnsdóttir komst ekki með vegna anna í námi.
Til viðbótar meiddist Telma Lísa Elmarsdóttir illa á hné á æfingu á þriðjudaginn.

Telma Lísa Elmarsdóttir stekkur upp gegn vörn Hauka í leik fyrir skömmu. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


„Hugsanlega þarf Telma Lísa að fara í aðgerð á hné því önnur hnéskelin færðist til,” sagði Andri sem reiknar hvorki með Telmu Lísu né Kristínu Aðalheiði aftur út á keppnisvöllinn fyrr en á nýju ári,“ sagði Andri en Telma Lísa hefur fengið talsverð tækifæri með KA/Þórsliðinu á keppnistímabilinu.

„Það er mikil tilhlökkun í hópnum fyrir þessum leikjum eftir strangan undirbúning vegna ferðarinnar,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs en fjórir leikmenn liðsins rjúka beint til Tékklands eftir viðureignirnar á Spáni þar sem æfingar og leikir með A-landsliðinu bíða. Aðrir úr hópnum koma heim á þriðjudaginn.


Ekki liggur fyrir hvort leikjunum verður sjónvarpað en verði svo þá mun handbolti.is, hvort sem útsendingar verða eða ekki, fylgja báðum leikjum eftir af fremsta megni á handboltavef nærri því allra handknattleiksáhugamanna hér á landi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -