- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Verðum klár í bikarleik á fimmtudaginn“

Handknattleikslið í Málaga á Spáni á dögunum. Mynd/ÍBV
- Auglýsing -

„Þrettán fóru í einangrun og sumar urðu nokkuð veikar. Það breytir ekki því að við verðum klár í bikarleik á fimmtudaginn,“ sagði Sigurður Bragason, þjálfari kvennaliðs ÍBV, við handbolta.is.

Handbolti.is sagði frá því á föstudaginn að átta leikmenn kvennaliðs ÍBV væru í einangrun vegna covid. Eftir það bættust fimm við í hópinn að sögn Sigurðar. „Þær síðustu losna úr einangrun á morgun,“ sagði Sigurður ennfremur í gærkvöld.


Smitin komu upp eftir ferð ÍBV til Spánar til tveggja leikja á Málaga í Evrópubikarkeppninni í handknattleik helgina 12. og 13. febrúar. Smitin greindust ekki fyrr en nokkrum dögum eftir að ÍBV-liðið kom til landsins enda er og hefur verið nokkurra sólarhringa bið eftir niðurstöðum úr skimunum. Áður en niðurstaðan lá fyrir lék ÍBV við Fjölni/Fylki í 16-liða úrslitum Coca Cola-bikarkeppninnar.


Þar með hefur allur leikmannahópur ÍBV-liðsins smitast af veirunni á undanförnum vikum að sögn Sigurðar. Þær einu úr hópnum sem ekki smituðustu í Spánarferðinni höfðu smitast á vikunum áður en haldið var af stað.


Engan bilbug er að finna á Sigurði og leikmönnum hans fremur en fyrri daginn. Framundan er viðureign í átta liða úrslitum Coca Cola-bikarsins á fimmtudagskvöldið. Í kvöld skýrist vonandi hvort andstæðingurinn verður FH eða Stjarnan en til stendur að liðin mætist í Kaplakrika kl. 19.30.

Ef FH vinnur leikinn kemur ÍBV-liðið til Hafnarfjarðar á fimmtudaginn. Takist Stjörnunni að hafa betur í Kaplakrika í kvöld fara Stjörnukonur til Eyja. Þegar hefur verið dregið í átta lið úrslit og fékk ÍBV heimaleikjarétt. Reglur bikarkeppninnar kveða á um að andstæðingur úr neðri deild fær heimaleikjarétt og því mun heimaleikjarétturinn færast yfir til FH vinni liðið sér inn þátttökurétt í átta liða úrslitum í kvöld. FH leikur í Grill66-deildinni en ÍBV og Stjarnan í úrvalsdeildinni, öðru nafni Olísdeildin.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -