- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verður erfitt – en eigum bullandi möguleika

Ýmir Örn Gíslason t.v. með Frakkann Kentin Mahe í fanginu í viðureign Íslands og Frakklands í fyrradag. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Þátttakan í mótinu hefur mikill skóli fyrir okkur. Allt hefur þetta tekið á. Við höfum verið góðir fyrir utan sóknarleikinn á móti Sviss á miðvikudaginn. Allir vitum við upp á okkur sökina í þeim efnum enda svöruðum við fyrir okkur gegn Frökkum. Það var mjög vel gert þótt það hafi ekki skilað okkur sigri,“ sagði varnarjaxlinn Ýmir Örn Gíslason sem vakið hefur mikla athygli fyrir vasklega framgöngu í íslensku vörninni á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Egyptalandi.


„Það er eriftt að kyngja þeirri staðreynd að hafa til þessa tapað þremur leikjum með tveggja marka mun af því að við höfum verið svo nærri því að hlutirnir féllu með okkur. Endasprettir leikjanna hafa reynst okkur erfiðastir. Þá hafa sigurmöguleikarnir runnið okkur úr greipum.

Gegn Frökkum finnst mér dómar undir lokin ekki fallið okkur í hag þótt ég ætli síður en svo að skrifa tapið á reikning dómaranna. Mörg smærri atriði sem hefðu getað haft áhrif eins og þegar brotið var harkalega á Gísla Þorgeiri. Þá hefði ég viljað sjá rautt spjald fara á loft, eins þegar markvörður Frakka rauk út úr markinu þegar við vorum í hraðaupphlaupi og snerti okkar mann sem brunaði fram völlinn. Sigvaldi hefði getað unnið tvo ruðninga á lokakaflanum og svo mætti áfram að telja. Þetta féll því miður bara ekki með okkur,“ sagði Ýmir Örn sem er ekki vafa um að leikmenn íslenska landsliðsins taki með sér drjúgt veganesti úr viðureigninni við Frakka inn í leikinn við Norðmenn í kvöld.

Höfum lagt okkur fram

„Fyrir mót var markmiðið að fara í hvern einasta leik til þess að vinna. Ég tel okkur hafa sýnt það til þessa að þótt margt hafi ekki gengið eftir að við erum hér til að leggja okkur fram í hverjum leik. Það gerðum við meðal annars gegn Frökkum en því miður var það ekki nóg. Maður verður að kyngja því og mæta mjög vel gíraður inn í leikinn við Noreg. Við ætlum að vinna og eyðileggja aðeins fyrir norska liðinu. Við erum ekkert hættir. Það er einn leikur eftir og það kemur ekki annað til greina en að vinna hann,“ sagði Ýmir Örn ákveðinn.
 
„Viðureignin við Norðmenn skiptir okkur mjög miklu máli. Við viljum enda mótið á sigri og fá að fara heim með góða tilfinningu úr því að á heildina litið verði niðurstaðan ekki eins og okkur langaði til í upphafi.“
Ýmir Örn fær væntanlega það hlutverk í leiknum í kvöld að glíma við einn allra besta handknattleiksmann heims um þessar mundir Sander Sagosen. Hann er prímusmótor í norska landsliðinu þótt innan raða þess sé fjöldi annarra framúrskarandi handknattleiksmanna.

Mjög vel spilandi lið

„Norðmenn eru með fjóra til fimm leikmenn sem eru frábærir og eru á mála hjá bestu liðum heims. Þess utan eru Norðmenn með mjög vel spilandi lið sem hefur verið lengi saman. Vörnin er góð auk toppmarkvarða. Sóknarleikurinn er leiftrandi og hraðaupphlaupin einstaklega vel útfærð.
Viðureignin verður verðugt verkefni fyrir okkur. Ég ætla ekki að skafa utan af því. En ég tel okkur eiga möguleika. Eins og stemningin er í liðinu og eins og við höfum verið að leika fram til þessa þá eigum við bullandi möguleika á sigri. Það tökum við með okkur inn í leikinn,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við handbolta.is í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -