- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verður frábært einvígi

Hildigunnur Einarsdóttir, Hildur Björnsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir gefa Karen Knútsdóttur ekki þumlung eftir. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

„Enginn vafi er á að Fram og Valur eru með tvö lang bestu kvennaliðin hér á landi í dag. Erfitt er að segja til um hvort liðið fer með sigur út býtum. Ég hallast þó frekar á sveif með að Fram vinni, ekki síst vegna markvörslunnar. Hafdís [Renötudóttir] er mikill reynslubolti með frábæra vörn fyrir framan sig,“ sagði Hrannar Guðmundsson þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar þegar handbolti.is bað hann um að spá í spilin fyrir úrslitaeinvígi Olísdeildar kvenna sem hefst í kvöld.

Varnarleikurinn verður í öndvegi

„Ég held að leikirnir muni einkennast af sterkum varnarleik hja báðum liðum. Þar af leiðandi verður ekki mikið skorað. Hraðaupphlaupin verða í öndvegi hjá báðum liðum þar sem Framliðið stendur vel að vígi. Hraðaupphlaup liðsins er mikilvægt vopn þar sem Karen [Knútsdóttir] ber upp boltann og finnur ávallt rétta kostinn. Leikmenn Vals verða að vera fljótar að skila sér heim,“ sagði Hrannar sem reiknar með mjög skemmtilegu einvígi sem hefst í kvöld klukkan 19.30 í Framhúsinu.

Fram og Valur eru sigursælustu liðin í kvennahandknattleik hér á landi. Fram hefur orðið Íslandsmeistari í 22 skipti, síðast árið 2018 en þá vann lið félagsins titilinn annað árið í röð.
Valur hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna 17 sinnum, síðast 2019. Valur er auk þess ríkjandi bikarmeistari eftir sigur á Fram í úrslitaleik 12. mars, 25:19.

Uppskrift að frábærum leikjum

„Bæði lið eru afar vel mönnuð með landsliðsmenn, núverandi og fyrrverandi, í öllum stöðum. Það er uppskrift að frábærum leikjum,“ sagði Hrannar.

Kristrún Steinþórsdóttiur, Emma Olsson og Stella Sigurðardóttir stöðva Hildigunni Einarsdóttir í úrslitaleik bikarkeppninnar í mars. Elín Rósa Magnúsdóttir fylgist með framvindunni. Mynd/J.L.Long


Varnarleikur beggja liða hefur verið aðal þeirra. Framvörnin er lítt árennilega með hávöxnum leikmönnum sem gefa ekkert eftir. Síst hefur dregið úr styrk varnarinnar hjá Fram eftir endurkomu Steinunnar Björnsdóttur eftir að hún jafnaði sig á meiðslum.


„Valsliðið verður að beita öllum brögðum til þess að koma hreyfingu á vörn Fram sem á það til að vera mjög passív aftur á línunni og ná þannig að koma skotum á markið. Valur hefur innan sinna raða frábærar skyttur, til dæmis Theu Imani [Sturludóttir], Lovísu [Thompson]og Mariam [Eradze],“ sagði Hrannar.

Sterkara byrjunarlið – meiri breidd


Að mati Hrannars hefur Fram sterkara byrjunarlið en breiddin sé meiri hjá Valsliðinu.


„Þjálfari Vals hefur rúllað meira á sínum hóp en Fram. Sú staðreynd gæti reynst Framliðinu erfið þegar komið verður inn í fjórða, svo ekki sé talað um fimmta leik. Það munar miklu þegar svona erfið einvígi lengjast.“

Leikjadagskrá úrslita Olísdeildar kvenna:
Föstudagur 20.maí: Fram - Valur kl. 19.30.
Mánudagur 23.maí: Valur - Fram kl. 19.30.
Fimmtudagur 26.maí: Fram - Valur kl. 19.30.
Sunnudagur 29.maí: Valur - Fram kl. 19.30.
Þriðjudagur 31.maí: Fram - Valur kl.19.30.
Liðið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður Íslandsmeistari 2022.

Frábær fjölskylduskemmtun

„Þetta einvígi endar ekki á annan hvorn veginn, 3:0. Ég reikna með oddaleik,” sagði Hrannar sem vonast til að áhorfendur fjölmenni á leikina og myndi góða stemningu. „Það er gaman fyrir fjölskyldur að fara saman á völlinn og mynda og upplifa stemninguna. Ég er viss um að þetta verði frábært einvígi,“ sagði Hrannar Guðmundsson, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -