„Við kláruðum þetta í seinni hálfleik“

Sandra Erlingsdóttir leikmaður EH Aalborg. Mynd/EH Aalborg Support

„Við höfum verið í brasi með að klára jafna leiki. Þar af leiðandi var extra gaman að okkur tókst að vinna þennan mikilvæga leik með góðum síðari hálfleik,“ sagði handknattleikskonan Sandra Erlingsdóttir, við handbolta.is í morgun. Í gærkvöldi tókst Söndru og samherjum í EH Aalborg krækja sér í oddaleik í umspili dönsku B-deildarinnar þegar þær unnu SønderjkyskE, 30:28, á útivelli.


Sandra og samherjar sneru leiknum sér í hag í síðari hálfleik eftir að hafa verið fjórum mörkum undir, 16:12, þegar gengið var til búningsherbergja í hálfleik.


„Við breyttum í fimm einn vörn og þær fóru í sjö á sex í sókninni sem gekk ekki hjá þeim og við kláruðum þetta í seinni hálfleik,“ sagði Sandra sem skoraði fimm mörk í leiknum.


EH Aalborg tapaði fyrir SønderjyskE á heimavelli sínum, Nørresundby Idrætscenter, 26:23 um síðustu helgi.


Eins og gefur að skilja ríkir mikil eftirvænting fyrir oddaleiknum á sunnudaginn í Nørresundby Idrætscenter. Sigurliðið mætir Horsens, sem rak lestina í umspilskeppni neðstu liða úrvalsdeildarinnar, um keppnisrétt í úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -