Viktor Gísli neitaði Rúnari um bæði stigin

Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska landsliðsins og danska liðsins GOG. Mynd/EPA

Viktor Gísli Hallgrímsson sá til þess að að GOG fór með annað stigið úr viðureign sinni við Ribe-Esbjerg í 22. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í kvöld. Hann varði síðasta skot leiksins á allra síðustu sekúndu frá landa sínum, Rúnari Kárasyni, lokatölur 28:28. Jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 12:12.


Ribe-Esbjerg þurfti sárlega á báðum stigunum að halda því leikmenn liðsins hafa ekki gefið upp alla von um að ná áttunda og síðasta sætinu inn í úrslitakeppnina um danska meistaratitilinn. Ribe-Esbjerg er í níunda sæti með 18 stig, er þremur stigum á eftir Ágústi Elí Björgvinssyni, hinum markverði landsliðsins, og samherjum í Kolding.

Kolding vann Århus Håndbold, 32:27, á heimavelli í kvöld þar sem Ágúst stóð í marki Kolding á endaspretti leiksins og varði þrjú skot, var með 33% hlutfallsmarkvörslu.


Viktor Gísli átti hinsvegar stórleik hjá GOG. Hann varði 20 skot, þar af eitt vítakast og var með 42,5% hlutfallsmarkvörslu.


Daníel Þór Ingason hefur sótt í sig veðrið upp á síðkastið. Hann lék afar vel fyrir Ribe-Esbjerg í kvöld og skoraði sex mörk í níu skotum, átti tvær stoðsendingar og var einu sinni vísað af leikvelli enda fastur fyrir á þeim vígstöðvum að vanda.


Rúnar Kárason skoraði fjögur mörk í 11 sktoum og átti þrjár stoðsendingar fyrir Ribe-Esbjerg.


Staðan í dönsku úrvalsdeildinni:
GOG 35(21), Aalborg 33(21), Holstebro 30(22), Bjerringbro/Silkeborg 29(20), Skanderborg 26(22), SönderjyskE 25(22), Skjern 23(21), Kolding 21(22) – Ribe-Esbjerg 18(22), Fredericia 18(20), Aarhus 16(22), Mors-Thy 15(21), Lemvig 6(22), Ringsted 5(22).

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -