- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vill sjá fjölmenni í Krikanum

Ísak Rafnsson og félagar í FH mæta SKA Minsk í Evrópubikarnum í Krikanum á laugardaginn. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

Á laugardaginn spilar karlalið FH fyrri leik sinn við SKA-Minsk frá Hvíta Rússlandi. Leikurinn hefst klukkan 17 í Kaplakrika. Ásgeir Jónsson formaður handknattleiksdeildar FH hefur haft í mörg horn að líta undanfarna daga og vikur við að undirbúna þátttökuna en FH-liðið leikur heima og að heiman.


Ásgeir sagði í samtali við handbolta.is að mikil eftirvænting ríkti fyrir leiknum á laugardginn. Hann eins og leikmenn FH vonast til að stuðningsmenn FH og aðrir handboltaáhugamenn fjölmenni í Krikann á stórleik enda er langþráður viðburður í augsýn og FH eitt það félag hér á landi sem hvað oftast hefur tekið þátt í Evrópukeppni í gegnum tíðina.


„Það eru allir hjá félaginu spenntir fyrir þessu verkefni sem framundan er. Við erum að fara að taka á móti stórliði SKA Minsk og frábært að geta borið okkur saman við félag af slíkum styrkleika.

Gytis Smantauskas í sigurleiknum á Víkingi í gærkvöld í Kaplakrika. Mynd/J.L.Long


Ég vona innilega að fólk fjölmenni í Kaplakrika á laugardaginn og styðji við bakið á okkur og um leið íslenskum handbolta,” sagði Ásgeir og er óhætt að taka undir með honum.

Leikmenn greiða sjálfir fyrir þátttökuna


FH-ingum veitir ekki af stuðningi, jafnt innan vallar sem utan því kostnaður við þátttökuna er ærinn og hana bera leikmenn, þjálfarar og farstjórn að öllu leyti. Ásgeir segir að kostnaðurinn við þessa tvo leiki við SKA Minst sé um 4 milljónir króna. Hann falli allur á leikmenn, þjálfarateymi og fararstjórn.

Leikmenn greiða sjálfir fyrir þátttökuna

„Það hefði að sjálfsögðu verið ódýrara og þægilegra að spila báða leikina úti eins og okkur stóð til boða en við vildum endilega spila annan leikinn heima og bjóða okkar stuðningsfólki og öðru handboltaáhugafólki að upplifa með okkur,” sagði Ásgeir og víst er að eftir kórónuveirufaraldurinn þá þyrstir fólk í að koma saman og upplifa stemningu og skemmtun.

Fiskbollur, happadrætti og bingó


Ásgeir sagði þátttökuna vera fjármagnaða á ýmsan hátt.

„Ef einhvern vantar happadrættismiða, fiskibollur eða langar að skella sér í bingó í kvöld þá endilega hafa samband við strákana, það eru allir á fullu í fjáröflunum vegna ævintýrisins sem framundan er.


Ég vil svo bara aftur hvetja fólk til að koma á leikinn á laugardaginn. Stuðningurinn skiptir strákana mjög miklu máli,” sagði Ásgeir Jónsson við handbolta.is í dag.

Stórskyttan Egill Magnússon skoraði níu mörk gegn Víkingi í gær. Hann eins og aðrir leikmenn FH eru klárir í slaginn gegn SKA Minsk á laugardaginn, Mynd/J.L.Long


Handbolti.is tekur undir með Ásgeiri og hvetur handboltaáhugafólk að fjölmenna í Kaplakrika á laugardaginn kl. 17 og á aðra leiki íslenskra félagsliða sem taka þátt í Evrópukeppni félagsliða.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -