- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Vonandi er bara um tognun að ræða“

Oddur Gretarsson kveður Balingen-Weilstetten í sumar eftir sjö ára veru. Mynd/Balingen Weilstetten
- Auglýsing -

„Mín tilfinning er sú að þetta er ekki eins alvarlegt og leit út fyrir í fyrstu. Vonandi er bara um tognun að ræða. Ég fer í skoðun hjá lækni í dag,“ sagði Oddur Gretarsson leikmaður þýska handknattleiksliðsins Balingen-Weilstetten. Oddur varð að fara af leikvelli síðla í viðureign Balingen og Erlangen í lokaumferð þýsku 1. deildarinnar í gær eftir að hafa meiðst á vinstri ökkla.


Í fyrstu var óttast að meiðslin væru alvarleg enda virtist Oddur koma illa niður á vinstri ökklann. Oddur er nýlega byrjaður að leika með Balingen eftir að hafa verið frá keppni frá síðasta sumri vegna aðgerðar sökum brjóskskemmda í hné.


Balingen tapaði leiknum í gær fyrir Erlangen og féll niður í 2. deild ásamt N-Lübbecke. Tveimur stigum munaði á Balingen og GWD Minden sem varð í þriðja neðsta sæti og slapp við fall. Veik en afar langsótt von var fyrir hendi hjá Balingenliðinu að hafa sætaskipti við Minden í lokaumferðinni.

Engan bilbug er að finna

Engan bilbug er að finna á Oddi þrátt fyrir vonbrigðin yfir falli niður um deild. Hann endurnýjaði samning sinn við félagið til eins árs í janúar. Í samningnum er ákvæði um að hann gildi hvort sem liðið á sæti í 1. eða 2. deild.


Oddur hefur marga fjöruna sopið með Balingenliðinu á síðustu fimm árum þekkir m.a. að leika í 2. deild en hann fór upp með liðinu í 1. deild vorið 2019 eftir tveggja ára veru í 2. deild.


„Það er ekkert annað að gera en að bíta í það súra og taka stefnuna rakleitt upp aftur,“ sagði Akureyringurinn ákveðinn þegar handbolti.is var í sambandi við hann í morgun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -