- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vonandi okkar síðasti leikur í Safamýri

Kristrún Steinþórsdóttir ógnar vörn KA/Þórs fyrr á keppnistímabilinu. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Við ætluðum okkur að halda heimaleikjaréttinum og vinna hér í kvöld. Það tókst og vonandi er þetta síðasti leikur okkar í Safamýri,“ sagði Kristrún Steinþórsdóttir leikmaður Fram eftir að liðið vann Val með þriggja marka mun, 25:22, í þriðju viðureign liðanna í kapphlaupinu um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna í kvöld. Fram hefur þar með tvo vinninga gegn einu Valsara. Vinni Fram næst leik sem fram fer í Origohöll Valsara á sunnudagskvöldið verður liðið Íslandsmeistari.


„Okkur langar að þetta verði síðasti leikur Fram í Safamýri, sigur, fullt af fólki, frábær stemning, forsetinn mætti. Þetta var bara frábært,“ sagði Kristrún en Fram flytur bækistöðvar sínar í nýtt íþróttahús í Safamýri í sumar.


Kristrún sagði að nokkrar sveiflur hafi verið í leiknum í kvöld. Þrátt fyrir það hafi Framliðið verið með yfirhöndina eftir að það komst yfir, 6:5, um miðjan fyrri hálfleik.


„Það var kannski aðeins minna hlaupið í kvöld en í tveimur fyrstu leikjunum. Mistökin voru fleiri og þreytan kannski farin að setja mark sitt á okkur enda þriðji leikur á innan við viku. Tveimur fyrstu leikirnir voru líka mjög hraðir.


Við mætum á sunnudaginn til þess að halda uppi hraða og vinna, engin spurning,“ sagði Kristrún Steinþórsdóttir, annar tveggja Selfyssinga í liði Fram en hún hefur komið inn í stærra hlutverki í liðinu síðari hluta tímabilsins vegna fjarveru Ragnheiðar Júlíusdóttur.


Fjórða viðureign Vals og Fram verður í Origohöllinni á Hlíðarenda á sunnudagskvöldið. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -