- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vöngum velt yfir breytingum á deildarkeppni kvenna

Hugsanlegt að aðeins verði leikið í einni deild kvenna á næsta keppnistímabili. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Þetta er eitt af því sem menn voru beðnir um að velta fyrir sér innan síns hóps á síðasta formannafundi. Það hefur engu verið slegið föstu ennþá,“ sagði Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands spurður hvort til standi að leika í einni deild kvenna á næsta ári í stað tveggja eins og gert er í dag. Orðrómur hefur verið uppi um að til standi að sameina Olísdeild og Grill66-deild kvenna.

„Við erum að velta fyrir okkur hvaða kostir eru í stöðunni og spyrja okkur um leið að því hvort við séum á réttri leið eins og staðan er. Viljum við eina deild eða tvær og hvað getum við gert til þess að efla kvennahandboltann. Deildarkeppnin er eitt atriðið í þeirri umræðu og almennt staðan í kvennahandboltanum,“ sagði Róbert Geir og bætir við að ljóst sé að mikill munur er á milli deildanna tveggja, Olísdeildar og Grill66-deildar.

Endurspeglast munurinn ekki síst í því að þau lið sem koma upp í Olísdeildina úr Grill66-deildinni eiga afar erfitt uppdráttar. Má þar m.a. nefna FH á síðasta keppnistímabili og Aftureldingu á yfirstandandi leiktíð.


Næsti formannafundur verður í febrúar og þá verða forsvarsmenn félaganna væntanlega búnir að hlera sitt fólk og tilbúnir að ákveða framhaldið.

Um árabil var leikið í einni deild kvenna en frá og með keppnistímabilinu 2016/2017 var deildinni skipt upp í tvær með átta liða úrvalsdeild (Olísdeild) og neðri deild (Grill66-deild).

Á ársþingi HSÍ í vor var samþykkt að fela stjórn HSÍ að skipa nefnd til að móta stefnu til framtíðar fyrir kvennahandboltann á Íslandi. Nefndin er enn að störfum að sögn Róberts Geirs.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -