Vonsvikin með niðurstöðuna – er stolt af liðinu

Rakel Dögg Bragadóttir þjálfari Stjörnunnar og leikmenn ráða ráðum sínum inni á leikvellinum. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

„Sóknarleikurinn var mjög striður og erfiður hjá okkur eins og síðast,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Stjörnunnar, og var eðlilega vonsvikin eftir að lið hennar tapaði öðru sinni fyrir ÍBV í fyrstu umferð úrslitakeppni Olísdeildar kvenna í handknattleik í dag, 29:26, í TM-höllinni. Stjarnan er þar með úr leik en ÍBV mætir deildarmeisturum KA/Þór í undanúrslitum sem hefjast á sunnudaginn.

„Við klikkuðum einnig á mörgum dauðafærum sem átti líka þátt í hvernig fór. Upp úr þessu fékk ÍBV-liðið mörg hraðaupphlaup sem var afar fúlt. En þetta er partur af leiknum. Því miður þá hittum við ekki á daginn að þessu sinni. Þar með er keppnistímabilið okkar á enda,“ sagði Rakel Dögg sem segist vera stolt af sínu liði. Það hafi farið í gegnum erfiðan vetur af dugnaði, elju og samstöðu og mætt áföllum með því að þétta raðirnar.


„Ég er gríðarlega stolt af stelpunum. Þær hafa farið í gegnum tímabilið sem hefur verið þyrnum stráð að mörgu leyti. Við höfum misst út markverðina okkar hvern á fætur öðrum í erfið meiðsli og fleira hefur gert okkur erfitt fyrir. Allt hefur þjappað okkur saman. Hópurinn er skipaður að verulegum hluta ungum og afar hæfileikaríkum stelpum sem voru að stíga sín fyrstu skref og tóku þátt í úrslitakeppni í fyrsta skipti. Auðvitað eru með þeim reynsluboltar. En heilt yfir er ég gríðarlega stolt af stelpunum eftir veturinn þótt við hefðum svo sannarlega viljað ná lengra,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Stjörnunnar í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -