- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Vorum algjörir klaufar“

Aron Dagur Pálsson leikmaður sænska úrvalsdeildarliðins Alingsås. Mynd /Alingsås
- Auglýsing -

„Við vorum algjörir klaufar í kvöld,“ sagði Aron Dagur Pálsson, leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Alingsås, þegar handbolti.is heyrði í honum í kvöld eftir að lið hans gerði jafntefli á heimavelli við Redbergslid, 26:26, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik og náð sex marka forskoti í síðari hálfleik.


„Við vorum sex mörkum yfir þegar korter var eftir af leiknum. Í framhaldinu gerðum við alltof marga tæknifeila og þar með gengu leikmenn Redbergslid á lagið,“ sagði Aron Dagur sem skoraði tvö mörk að þessu sinni og var einu sinni sendur í skammarkrókinn í tvær mínútur fyrir að ganga full vasklega fram í vörninni.


Þrátt fyrir öll mistökin þá fengu Aron Dagur og félagar tækifæri til þess að vinna leikinn en þeir voru með boltann síðustu 30 sekúndur leiksins. „Síðustu sóknina lékum við vel þar til síðasta sendingin niður í hornið klikkaði í draumastöðu þar sem við vorum komnir með yfirtölu,“ sagði Aron Dagur og var að vonum vonsvikinn með niðurstöðuna.


Alingsås hafði unnið fjóra leiki í röð þegar kom að jafnteflinu í kvöld. Liðið situr í þriðja sæti með 9 stig að loknum sex leikjum.


Aron Dagur lék aðallega sem miðjumaður með Gróttu og síðar Stjörnunni áður en hann fór til Alingsås fyrir hálfu öðru ári. Hann segist helst vera í skyttustöðunni vinstra megin hjá sænska liðinu en eigi það til að bregða sér inn á miðjuna standi honum það til boða.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -