Vorum stöðugir í keppninni og þetta er afraksturinn

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon fagna með samherjum sínum eftir sigur í Evrópudeildinni vor. Mynd/SC Magdeburg

„Þetta er æðislega gaman til viðbótar við það að við lékum mjög vel, ekki síst í úrslitaleiknum,“ sagði Ómar Ingi Magnússon annar af tveimur Íslendingum hjá þýska handknattleiksliðinu SC Magdeburg sem vann Evrópudeildina á sunnudaginn eftir öruggan sigur á Füchse Berlin, 28:25, í úrslitaleik í Mannheim. Handbolti.is sló á þráðinn til Ómars Inga í morgun.


Hinn Íslendingurinn í herbúðum SC Magdeburg er Gísli Þorgeir Kristjánsson. Gísli Þorgeir er því miður frá keppni um þessar mundir vegna alvarlegra axlarmeiðsla sem hann varð fyrir í lok mars. Gísli Þorgeir er hluti sigurliðsins enda lék hann með alla leikina í riðlakeppninni en var meiddur þegar kom að útsláttarhlutanum um mánaðarmóti mars, apríl.Þetta eru fyrstu sigurlaun SC Magdeburg í Evrópukeppni í 14 ár eða síðan liðið vann EHF-keppnina, forvera Evrópudeildarinnar vorið 2007.

„Það var mikil hátíð í borginni og frábærlega tekið á móti okkur af stuðningsmönnum. Maður fann að það var mikil ánægja innan og utan félagsins með sigurinn,“ sagði Ómar Ingi og bætti við að félagið væri vinsælt í borginni. Íbúar taka vel eftir því sem fram fer á leikvellinum. „Fólk sem maður hefur rekist á á förnum vegi óskar manni til hamingju. Það er greinilega fylgst gríðarlega vel með okkur.

Unnu 15 leiki af 16

„Við vorum stöðugir í keppninni og þetta er afraksturinn,“ sagði Ómar Ingi en Magdeburg vann 15 af 16 leikjum sínum í keppninni á leiktíðinni sem er frábær árangur þegar litið er til þess að mörg mjög öflug lið frá mörgum ríkjum Evrópu tóku þátt.

Sterkt lið í keppninni

„Vissulega eru missterk lið í þessari keppni en að mínu mati eru fimm til sex lið sem eru alveg á pari við liðin sem leika í Meistaradeild Evrópu. Öll voru þau svipuð okkur að styrkleika og hefðu getað unnið keppnina. Við unnum bara þá leiki sem við þurftum að vinna til þess að fara alla leið í keppinni,“ sagði Ómar Ingi.

Frábærir í fyrri hálfleik

Undanúrslit og úrslitaleikir Evrópudeildarinnar fóru fram í Mannheim á laugardag og á sunnudag, sannkölluð úrslitahelgi, stundum kölluð Finalfour, á afar slæmri íslensku. Magdeburg vann Wisla Plock frá Póllandi, 30:29. „Við lékum ekkert ofsalega vel í þeim leik en nógu vel til þess að vinna. Úrslitaleikurinn við Füchse Berlin var hinsvegar mikið betur leikinn af okkar hálfu, sérstaklega fyrri hálfleikur sem var hreint frábær,“ sagði Ómar Ingi en Magdeburg var sjö mörkum yfir í hálfleik, 15:8.

Næst markahæstur

„Vörnin var geggjuð og Jannick Green fór á kostum í markinu fyrir aftan okkur,“ sagði Ómar en danski landsliðsmarkvörðurinn var valinn besti leikmaður úrslitaleiksins, Green varði 17 skot og var með liðlega 41% hlutfallsmarkvörslu. Ómar Ingi var næst markahæsti leikmaður Evrópudeildarinnar með 94 mörk, var tveimur mörkum á eftir Emil Jakobsson hornamanni GOG í Danmörku og liðsfélaga Viktors Gísla Hallgrímssonar markvarðar.Ýmir Örn Gíslason og félagar í Rhein-Neckar Löwen unnu Wisla Plock, 35:32, í leiknum um þriðja sætið og fengu bronsverðlaun.

Alltaf hægt að bæta sig

Ómar Ingi kom til liðs við Magdeburg á síðasta sumri. Hann hefur leikið afar vel með Magdeburg á leiktíðinni, ekki síst eftir áramótin. Hann hefur skorað mörg mörk og átt fjölda stoðsendinga. „Þótt mér hafi gengið vel þá finnst mér sem ég eigi mikið inni á nokkrum sviðum. Það er alltaf hægt að bæta sig. Ég reyni bara að vinna eins vel úr þessu og kostur er.“

Stefnan tekin á þriðja sætið

Magdeburg er í fjórða sæti 1. deildarinnar i Þýskalandi, tveimur stigum á eftir Rhein-Neckar Löwen sem leikið hefur tveimur leikjum fleira. Kiel og Flensburg berjast á toppnum og hafa fyrir nokkru kvatt liðin fyrir aftan sig. Ómar Ingi segir það vera keppikefli Magdeburgliðsins að ná þriðja sætinu.

„Þar með gætum við endað tímabilið mjög vel eins og staðan er. Við höfum tapað of mörgum stigum til þess að eiga möguleika að ná Kiel og Flensburg en viljum gera eins eins vel og hægt er á lokasprettinum. Við eigum níu leiki eftir í deildinni,“ sagði nýkrýndur Evrópumeistari Ómari Ingi Magnússon í samtali við handbolta.is í morgun.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -