- Auglýsing -
- Auglýsing -

Adam fór á kostum – Stjarnan áfram á sigurbraut

Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

Stjarnan hlammaði sér við hliðina á Valsmönnum á toppi Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld þegar liðið vann Selfoss, 25:20, í Set höllinni á Selfossi í upphafsleik fimmtu umferðar deildarinnar. Jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 11:11, eftir frábærar upphafsmínútur heimamanna.

Stjarnan er með átta stig eftir fjóra leiki eins og Valur en liðin eru þau einu sem hafa ekki tapað leik fram til þessa. Adam Thorstensen fór á kostum í marki Stjörnunnar í leiknum.


Selfossliðið hóf leikinn af miklum krafti á heimavelli. Virtist það ætla að sigla yfir gesti sína í Garðabæ. Eftir stundarfjórðung þá hafði Selfoss skorað átta af fyrstu 11 mörkum leiksins.


Stjörnumenn voru á öðru máli. Þeir sóttu í sig veðrið þegar á leið hálfleikinn og þegar hann var á enda var staðan orðin jöfn, 11:11. Gunnar Steinn Jónsson jafnaði metin fyrir Stjörnuna á síðustu mínútu.


Stjarnan var með frumkvæði fyrstu 20 mínútur síðari hálfleiks. Forskotið var eitt til tvö mörk. Síðustu tíu mínúturnar voru hinsvegar eign gestanna úr Garðabæ. Þeir sigldu framúr og voru með þriggja til fimm marka forskot allt til enda. Nokkuð sem Selfossliðið megnaði ekki að ógna.


Unglingalandsliðsmarkvörðurinn Adam Thorstensen fór á kostum í marki Stjörnunnar og hélt uppteknum hætti frá viðureinginni við KA á heimavelli á sunnudaginn. Hann endaði leikinn með yfir 50% markvörslu meðan markverðir Selfoss, Sölvi Ólafsson og Vilius Rasimas, náðu sér vart á strik.

Sendur í bað eftir 12 mínútur

Þórður Tandri Ágústsson, línumaðurinn sterki hjá Stjörnunni lék aðeins fyrstu 12 mínútur leiksins. Þá hafði honum verið vísað af leikvelli í þrígang og mátti bíta í það súra epli að fylgjast með því sem eftir var af leiknum úr áhorfendastúkunni. Það er einstakt að leikmenn séu svo óheppnir að fá þrjár brottvísanir svo snemma í leik og muna elstu menn ekki í bili eftir öðru sambærilegu atviki hér á landi í seinni tíð.

Björgvin Þór Hólmgeirsson lék ekki með Stjörnunni að þessu sinni.


Mörk Selfoss: Einar Sverrisson 7/2, Hergeir Grímsson 4, Ísak Gústafsson 3, Gunnar Flosi Grétarsson 2, Karolos Stropus 2, Guðjón Baldur Ómarsson 1.
Varin skot: Sölvi Ólafsson 7/1, 25,9% – Vilius Rasimas 1, 16,7.

Mörk Stjörnunnar: Starri Friðriksson 7/1, Leó Snær Pétursson 6/3, Dagur Gautason 3, Sverrir Eyjólfsson 3, Gunnar Steinn Jónsson 2 (8 sköpuð færi), Hafþór Már Vignisson 2, Ari Sverrir Magnússon 2.
Varin skot: Adam Thorstensen 12/1, 54,5%. Sigurður Dan Óskarsson 0.

Alla tölfræði leiksins er að finna hjá HBStatz.

Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild karla er að finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -