Annar sigur Selfoss í röð

Guðmundur Hólmar Helgason fékk högg á kinnbeinið í leiknum við Val í gær. Mynd/Selfoss/SÁ

Selfoss vann annan leik sinn í röð í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld þegar liðið lagði Víkinga, 32:18, í upphafsleik 8. umferðar í Sethöllinni á Selfossi í kvöld. Selfoss var þremur mörkum yfir í hálfleik, 12:9, og hefur nú sex stig eftir sjö leiki. Víkingur er á hinn bóginn enn án stiga eftir átta leiki í neðsta sæti.


Óhætt er að segja að liðin hafi farið rólega af stað og aðeins voru skoruð sjö mörk á fyrsta stundarfjórðungi leiksins í Sethöllinni í kvöld. Af þeim skoruðu heimamenn fimm. Eftir að Víkingar höfðu ráðið ráðum sínum í leikhléi tóku þeir vel við sér og náðu að halda í við Selfyssinga fram að hálfleik. Munaði þar ekki hvað minnstu um stórleik Jovan Kukobat markvarðar.

Leikmenn Selfoss tóku öll völd á leikvellinum í síðari hálfleik og juku forskot sitt jafnt og þétt allt til leiksloka þegar 14 mörk skildu liðin að. Sá munur var þó orðinn að veruleika eftir miðjan síðari hálfleik.


Miklu máli skiptir fyrir Selfossliðið að hafa endurheimt Guðmund Hólmar Helgason til baka eftir langvarandi meiðsli. Hann fór á kostum í kvöld og skoraði 10 mörk, auk þess sem hann skapði fjögur færi og stal boltanum þrisvar af Víkingum. Sölvi Ólafsson varði einnig afar vel í markinu í fjarveru Vilius Rasimas sem er meiddur og var fjarverandi annan leikinn í röð. Hergeir Grímsson var að vanda mikilvægur í stóru hlutverki í sókninni.

Sem fyrr er á brattann að sækja hjá leikmönnum Víkings sem komu óvænt upp í deildina á elleftu stundu í sumar. Þeir eiga engan kost annan en að halda áfram að vinna í sínum málum því þótt staðan sé erfið þá er langt í frá tilefni til að leggja árar í bát. Sóknarleikurinn er liðinu fjötur um fót til framfara.


Mörk Selfoss: Guðmundur Hólmar Helgason 10/3, Hergeir Grímsson 7, Alexander Már Egan 3, Richard Sæþór Sigurðsson 3, Árni Steinn Steinþórson 2, Guðjón Baldur Ómarsson 2, Karolis Stropus 1, Ragnar Jóhannsson 1, Elvar Elí Hallgrímsson 1, Haukur Páll Hallgrímsson 1.
Varin skot: Sölvi Ólafson 13, 44,8% – Alexander Hrafnkelsson 1, 33,3%.

Mörk Víkings: Benedikt Elvar Skarphéðinsson 4/2, Ólafur Guðni Eiríksson 2, Arnar Steinn Arnarsson 2, Jón Hjálmarsson 2, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 2, Hjalti Már Hjaltason 1, Guðjón Ágústsson 1, Arnar Gauti Grettisson 1, Jóhannes Berg Andrason 1, Styrmir Sigurðarson 1, Gísli Jörgen Gíslason 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 11, 33,3% – Sverrir Andrésson 4, 28,6%.

Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

Stöðuna í Olísdeild karla og næstu leiki má sjá hér.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -