Flytur á ný til Noregs eftir stutta dvöl í Þýskalandi

Örn Ve´steinsson Östenberg lætur skot ríða af í leik með TV Emsdetten. Mynd/TV Emsdetten

Handknattleiksmaðurinn Örn Vésteinsson Östenberg hefur sagt skilið við TV Emsdetten í Þýskaland og samið við norska úrvalsdeildarliðið Haslum. Örn þekkir vel til í norskum handknattleik en hann hefur m.a. leikið með Bodø og Nøtterøy en síðarnefnda liðið yfirgaf hann í lok janúar þegar liðið varð að draga saman seglin af fjárhagsástæðum.


Örn flutti sig þá yfir til TV Emsdetten í febrúar en þegar liðið féll úr þýsku 2. deildinni fór hann að líta í kringum sig. Eftir því sem næst verður komist stóð Erni til boða samningur hjá tveimur liðum í þýsku 3. deildinni auk Haslum sem hann valdi.Haslum hafnaði í 11. sæti norsku úrvalsdeildarinnar og tók þátt í umspili um áframhaldandi veru í deildinni og stóðst prófið. Leikmannahópur Haslum er ungur um þessar mundir og er Erni ætlað veigamikið hlutverk hjá liðinu. Hann er hávaxinn, 195 sentimetrar, og öflug hægri handar skytta.

Örn, sem er 23 ára gamall, er ekki ýkja þekktur hér á landi þrátt fyrir að hafa leikið með yngri landsliðum Íslands og verið um skeið með Selfossi og Gróttu. Örn fæddist í Svíþjóð og ólst upp í Växjö í Smálöndum. Faðir hans er Vésteinn Hafsteinsson frá Selfossi, Íslandsmethafi í kringlukasti og þjálfari fremstu kringlukastara heims undanfarin tvo áratugi. Móðirin, Anna Östenberg, var þekkt frjálsíþróttakona í Svíþjóð og landsmetshafi í kringlukasti um árabil. Örn er elstur af þremur börnum Vésteins og Önnu.

Hér er viðtal handbolta.is við Örn síðan í febrúar.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -