- Auglýsing -
- Auglýsing -

Lovísa skoraði 15 mörk og batt enda á sigurgöngu ÍBV

Lovísa Thompson fagnar einu af mörgum mörkum sínum fyrir Val á síðustu árum. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Lovísa Thompson átti stærstan þátt í að binda enda á sigurgöngu ÍBV í Olísdeild kvenna í handknattleik í dag. Hún skoraði 15 mörk þegar Valur vann ÍBV, 29:23, í Origohöllinni í dag í 17. umferð deildarinnar. Leikmenn ÍBV réðu ekkert við Lovísu sem brást aðeins bogalistin í tveimur skotum. Sex marka sinni skoraði Lovísa úr vítakaöstum.


Eftir sex sigurleiki í röð í Olísdeildinni varð ÍBV-liðið að játa sig sigrað. Það gaf mjög eftir síðustu 20 mínúturnar eftir að hafa verið í afar vænlegri stöðu, 17:13, þegar um tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Mikil umskipti urðu. Skellt var í lás í vörn Vals og Saga Sif Gísladóttir, sem hafði verið dauf í dálkinn, varði allt hvað af tók. Valsliðið sneri leiknum sér í hag og ÍBV skoraði aðeins fjögur mörk síðustu 16 mínúturnar.


Valur er þar með stigi á eftir Fram í næsta efsta sæti en hefur reyndar leikið einum leik fleira. ÍBV er í fimmta sæti með 17 stig og getur fallið niður í sjötta sæti síðar í dag ef Stjarnan vinnur Aftureldingu. ÍBV á reyndar inni tvo til þrjá leiki á liðin fyrir ofan.


Mörk Vals: Lovísa Thompson 15/6, Thea Imani Sturludóttir 6, Morgan Marie Þorkelsdóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Hildur Björnsdóttir 1, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 7, 25% – Sara Sif Helgadóttir 1, 33,3%.
Mörk ÍBV: Marija Jovanovic 7/4, Sunna Jónsdóttir 3, Karolina Olszowa 3/1, Elísa Elíasdóttir 3, Harpa Valey Gylfadóttir 3, Lina Cardell 2, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 2.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 11/1, 28,2% – Erla Rós Sigmarsdóttir 0.


Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.


Stöðu og næstu leiki í Olísdeild kvenna er að finna hér.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -