- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stoltur yfir að vera kominn í góðra manna hóp

Ómar Ingi Magnússon, íþróttamaður ársins 2021. Mynd/Mummi Lú
- Auglýsing -

„Þetta er nokkuð óraunverulegt og hefur ekki alveg síast inn ennþá,“ sagði nýkjörinn íþróttamaður ársins 2021, handknattleiksmaðurinn Ómari Ingi Magnússon, þegar handbolti.is náði stuttu tali af honum í gærkvöld eftir að Ómar Ingi hafði tekið við viðurkenningu sinni.

Tíundi handboltamaðurinn

Ómar Ingi er tíundi handknattleiksmaðurinn sem hreppir hnossið frá því að Samtök íþróttafréttamanna kusu íþróttamann ársins fyrst árið 1956. Um leið er Ómar Ingi fyrsti handknattleiksmaðurinn í níu ár sem hlýtur nafnbótina.

Ómar Ingi er 24 ára gamall. Hann lék upp alla sigursæla yngri flokka Selfoss og upp í meistaraflokk. Sautján ára gamall gekk Ómar Ingi til liðs við Val og lék með Hlíðarendaliðinu í tvö ár. Sumarið 2016 samdi Ómar Ingi við Aarhus Håndbold og tveimur árum síðar varð hann liðsmaður Aalborg Håndbold og var m.a. danskur meistari 2019 og 2020 með liðinu. Árið 2020 gekk Ómar Ingi til liðs við SC Magdeburg og sló í gegn á fyrsta tímabili og varð m.a. markakóngur þýsku 1.deildarinnar. Hann er samningsbundinn SC Magdeburg til 2026.

„Ég er mjög stoltur yfir að vera kominn í góðra manna hóp,“ sagði Ómar Ingi ennfremur en árið hefur verið frábært hjá honum.
Spurður hvort hann reiknaði með að kjörinu fylgi aukin pressa fyrir komandi ár þar sem íslenska landsliðið tekur m.a. þátt í Evrópumótinu í næsta mánuði.

Tómas Þór Þórðarson, formaður Samtaka íþróttafréttamanna, afhendir Ómari Inga verðlaunagripinn góða sem fylgir kjöri íþróttamanns ársins. Mynd/Mummi Lú

Vinn út frá eigin markmiðum

„Örugglega verður þetta til að fleiri fylgist með mér. Ég geri hinsvegar svo miklar kröfur til mín og held þar af leiðandi áfram að vinna út frá mínum markmiðum og mínum kolli,“ sagði Ómar Ingi.

Ómar Ingi á að baki 56 A-landsleiki sem hann hefur skoraði í 150 mörk. Fyrsta stórmót hans með A-landsliðinu var HM 2017 í Frakklandi. Einnig tók hann þátt í EM 2018, HM 2019 og HM 2021. Vegna höfuðhöggs var Ómar Ingi ekki með á EM 2020.
Ómar Ingi í leik með Magdeburg gegn Sävehof í Evrópudeildinni í handknattleik fyrr í mánuðinum. Mynd/Guðmundur Svansson

Stoltur af árangrinum – sterkir bakhjarlar

„Ég er líka mjög stoltur af árangri mínum á árinu. Mér hefur gengið afar vel og náð flestum þeim markmiðum sem ég setti mér. Ég hef lagt mikla vinnu á mig til þess að ná þessum árangri. Honum hefði ég ekki náð nema með því öfluga fólki sem er í kringum eins og fjölskyldunni. Leiðin hefur ekki verið auðveld og það þarf margt að spila saman til þess að eiga góða leiki hvað eftir annað. Til þess þarf að leggja hart að sér og eiga sterka bakhjarla. Mér þykir því afar vænt um að fá viðurkenningu fyrir vinnuna,“ sagði Ómar Ingi sem var einn þeirra íþrótamanna sem var viðstaddur kjörið í gærkvöldi sem var afar fámennt vegna sóttvarnarráðstafana.

Á árinu 2021 varð Ómar Ingi markakóngur þýsku 1. deildarinnar með 274 mörk. Hann er fjórði Íslendingurinn sem nær þeim áfanga. Hinir eru Sigurður Valur Sveinsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Bjarki Már Elísson. Einnig átti Ómar Ingi næst flestar stoðsendingar allra leikmanna deildarinnar, 91.

Var alls ekki viss

Gerði Ómar Ingi sér vonir um að hreppa titilinn þegar hann gekk inn í úrvapshúsið í gærkvöld?

„Ég gerði mér grein fyrir að möguleikinn væri fyrir hendi að vinna enda var ég einn af tíu sem voru tilnefndir. En ég var alls ekkert viss,“ sagði Ómar Ingi Magnússon, íþróttamaður ársins 2021, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður SC Magdeburg í Þýskalandi.

Ómar Ingi var í sigurliði SC Magdeburg þegar liðið vann Evrópudeildina í handknattleik í vor. Evrópudeildin er næst sterkasta félagsliðakeppni á vegum Handknattleiksambands Evrópu. Hann var næst markahæsti leikmaður keppninnar og besti leikmaður liðsins á úrslitahelgi keppninnar. Í haust var Ómar Ingi í stóru hlutverki hjá SC Magdeburg er liðið vann heimsmeistarakeppni félagsliða eftir sigur á Barcelona í úrslitaleik.  Magdeburg tapaði ekki 27 fyrstu leikjum sínum á þessari leiktíð, þar af 16 í þýsku 1. deildinni. Um þessar mundir er Ómar Ingi fjórði á lista yfir markahæstu leikmenn þýsku 1. deildarinnar. 
Þrír af fjórum handknattleiksmönnum sem voru á lista tíu efstu í kjöri á íþróttamanni ársins 2021, f.v. Bjarki Már Elísson, Ómar Ingi, Rut Arnfjörð Jónsdóttir. Aron Pálmarsson er enn í Danmörku og var því ekki viðstaddur athöfnina í gærkvöld. Mynd/Mummi Lú
Íþróttamenn ársins úr handbolta:
1964 - Sigríður Sigurðardóttir.
1968 - Geir Hallsteinsson.
1971 - Hjalti Einarsson.
1989 - Alfreð Gíslason.
1997 - Geir Sveinsson.
2002 - Ólafur Stefánsson.
2003 - Ólafur Stefánsson.
2006 - Guðjón Valur Sigurðsson.
2008 - Ólafur Stefánsson.
2009 - Ólafur Stefánsson.
2010 - Alexander Petersson.
2012 - Aron Pálmarsson.
2021 - Ómar Ingi Magnússon.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -