- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tveir nauðsynlegir sigrar í höfn

Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Stjarnan
- Auglýsing -

Hrannar Guðmundsson, sem nýverið tók við þjálfun kvennaliðs Stjörnunnar, var glaður í bragði þegar handbolti.is hitti hann að máli efir að Stjarnan vann HK, 27:24, í Olísdeild kvenna í TM-höllinni í Garðabæ í gærkvöld. Annar sigur Stjörnunnar í röð undir hans stjórn var í höfn. Fyrri sigurinn var gegn Haukum 29. janúar, 28:22.


„Þessir tveir sigurleikir voru nauðsynlegir fyrir okkur og eru hluti af því að byggja upp sjálfstraust,“ sagði Hrannar. Með sigrinunum er Stjarnan komin upp að hlið ÍBV með 14 stig í fimmta til sjötta sæti. Stjarnan er nú sjö stigum á undan HK sem er í sjöunda sæti. Sex efstu sæti í Olísdeildinni veita þátttökurétt í úrslitakeppninni í vor.


„Mér fannst varnarleikurinn vera góður hjá okkur í þessum leik við HK í kvöld. Sóknarleikurinn var kaflaskiptur og á stundum stirður. Við vorum með sautján tapaða bolta sem er alltof mikið. Flest mörkin sem við fengum á okkur í fyrri hálfleik komu í framhaldi af því að við misstum boltann auðveldlega og HK skoraði auðveld mörk í bakið á okkur. Það eru mjög dýr mörk. Þegar á leið tókst okkur betur að ljúka sóknunum og draga úr auðveldu mörkunum hjá HK-liðinu,“ sagði Hrannar og bætir við að áfram verði unnið í að bæta leik liðsins jafnt í vörn sem sókn.

Beið eftir tækifærinu

Hrannar segist vera afar ánægður með það tækifæri sem hann fékk með þjálfun Stjörnunnar. „Ég beið eftir að fá rétta tækifærið og nú bauðst það. Mér finnst mjög gaman að takast á við þá áskorun sem felst í að þjálfa Stjörnuna. Ég kvíði ekki pressunni sem starfinu fylgir, það eykur bara áskorunina. Pressan er betri en ef öllum væri alveg sama. Stjarnan er lið sem vill vinna allt, jafnt í karla sem kvennaflokki. Ég finn vel að innan félagsins leggjast allir á eitt við að gera gott betra. Umgjörðin er frábær og bara virkilega gaman að vinna hérna,“ sagði Hrannar sem aðstoðarþjálfari karlaliðs Aftureldingar áður en hann tók við þjálfun Stjörnunnar eftir miðjan síðasta mánuð.


„Byrjunin er góð, fjögur stig í tveimur leikjum. Útkoman getur ekki verið betri. Það er betra að spila illa og vinna en leika vel og tapa. Þegar öllu er botninn hvolft snýst þetta allt saman um að safna stigum,“ sagði Hrannar Guðmundssson, nýráðinn þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í Olísdeildinni.


Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild kvenna má sjá hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -