Viðurkenning að fá að taka þátt í þessu verkefni

Janus Daði Smárason flytur til Noregs á næsta sumri. Mynd/EPA

„Fyrst og fremst er þetta spennandi. Það er svo sannarlega ekki á hverjum degi sem manni stendur til boða að taka þátt í taka þátt í uppbyggingu eins og þessari,“ sagði Janus Daði Smárason, landsliðsmaður í handknattleik og liðsmaður Göppingen sem skrifað hefur undir tveggja ára samning við norska liðið Kolstad. Forsvarsmenn Þrándheimsliðsins hafa uppi háleit áformum að byggja upp evrópskt handboltastórveldi á næstu árum.

Hlakkar til að leggja sitt af mörkum

„Ég tel mig enn hafa mjög margt fram að færa sem handknattleiksmaður sem getur nýst í þessu verkefni sem Norðmennirnir eru að fara af stað með. Ég hlakka til að taka þátt í þessu og leggja mitt af mörkum,“ sagði Janus Daði ennfremur þegar handbolti.is rabbaði við hann.

Til Þrándheims næsta sumar

Janus Daði gengur til liðs við Kolstad á næsta sumri þegar samningstími hans við þýska liðið Göppingen verður á enda runninn.

Janus Daði er að minnsta kosti einn fjögurra sterkra leikmanna sem koma til Kolstad á næsta sumri og að lágmarki tveir bætast í hópinn sumarið 2023, annar þeirra dáðasti handknattleikskarl Noregs um þessar mundir Sander Sagosen.

Torbjørn Bergerud, landsliðsmarkvörður Noregs, Magnus Gullerud, Sigvaldi Björn Guðjónsson og Janus Daði Smárason koma til Kolstad á næsta sumri. Magnus Abelvik Rød og Sander Sagosen bætast í hópinn sumarið 2023 þegar samningar þeirra við Flensburg og Kiel renna út.

Ekki sjálfgefið að leiðin verði greið

„Mér finnst spennandi að taka þátt í einhverju sem er margfalt stærra en maður er sjálfur með von um að verða endurgoldið margfaldlega til baka með góðum árangri. Markmiðin eru háleit og síður en svo sjálfgefið að leiðin verður bein og breið alla leið að markinu. Við eigum örugglega eftir gera mistök hér og þar á leiðinni. En að vera í umhverfi þar sem stefnt er á toppinn og ekkert annað hentar mér vel,“ sagði Janus Daði og bætir við.

Viðurkenning fyrir mig

„Einnig er það ákveðin viðurkenning fyrir mig að hafa staðið til boða að taka þátt í þessu verkefni hjá Kolstad og það hafi verið eftir því tekið sem maður hefur gert á vellinum undanfarin ár.“


Janus Daði er hér heima um þessar mundir en ekkert er leikið í þýska handknattleiknum þessa vikuna vegna æfinga og leikja landsliða. Janus Daði er þar fyrir utan í séræfingum vegna axlarmeiðsla sem hafa elt hann allt árið.

Hefur góða von um öxlina

Janus Daði gerir sér góðar vonir um að farið sé að sjá fyrir endan á þeim erfiðleikum sem hann hefur átt við að etja vegna hægri axlarinnar.

„Haldi ég rétt á spilunum getur öxlin verið í toppstandi í áratug. Til þess verð ég að vera klókur og þá hentar mér vel að fara til Noregs þar sem álagið verður e.t.v minna á næsta tímabili en það er í þýsku 1. deildinni. Í Noregi fæ ég vonandi tíma til þess að meiri tíma til þess að æfa öxlina meira. Þessa dagana er ákveðin endurnýjun í því að hvíla sig á sjúkraþjálfaranum hjá Göppingen og vinna með Jónda [Jóni Birgir Guðmundsson sjúkraþjálfari á Selfoss],“ sagði Janus Daði léttur lund en hann mætir einnig á landsliðsæfingar þótt hann taki ekki þátt í þeim eins og ef hann væri heill heilsu.

Var ekki sjálfsagt

Nokkrir mánuðir eru liðnir síðan sú hugmynd var nefnd við Janus Daða hvort hann vildi taka þátt í komandi ævintýri með Kolstad. Þá var ekki búið að hnýta alla enda t.d. varðar fjármögnun. Þar af leiðandi hafi það ekki verið borðleggjandi að láta slag standa.

„Ég er ánægður með að nú sé búið að hnýta alla enda og ljóst að hverju maður gengur næsta sumar,“ sagði Janus Daði Smárason, handknattleiksmaður í samtali við handbolta.is.

Pétur Pálsson lék með Kolstad frá 2013 til 2017 og var í liðinu sem vann sér sæti í norsku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn 2015.
Kolstad er í 9. sæti norsku úrvalsdeildarinnar með sjö stig eftir níu leiki, 12 stigum á eftir Elverum sem trónir á toppnum eins og undanfarin ár
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -