- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ákvörðunin er galin“

Björgvin Páll Gústavsson er ómyrkur í máli í garð leikskipulags Olísdeildar. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður og leikmaður Hauka, segir ákvörðun HSÍ að hefja ekki keppni í Olísdeild karla aftur fyrr en 9. maí vera áfall fyrir leikmenn og að hún sé galin. Ekki hafi verið horft til sjónarmiða eða líðanar leikmanna né hvað sé íþróttinni til hagsbóta. Björgvin Páll segir í samtali við handbolta.is ekki trúa öðru en að ákvörðunin verði endurskoðuð, og það fljótt. Ef ekki sé í uppsiglingu katastrófa. Ekki hafi verið leitað eftir skoðunum leikmanna um hvað gera skyldi.


„Allir þeir sem ég hef heyrt í eftir að upplýst var um að ekki verði byrjað aftur fyrr en 9. maí eru allt frá því að vera leiðir upp í það að vera pirraðir og brjálaðir yfir þessu,“ segir Björgvin Páll.

Málið ekki hugsað til enda

„Ég held að þessi ákvörðun sé ekki tekin með hagsmuni leikmanna eða handboltans að leiðarljósi. Ef þeir telja svo vera þá eru hafa þeir ekki hugsað málið til enda. Hvort sem þessi ákvörðun er tekin af HSÍ eða formönnum félaganna þá er alveg ljóst að rödd leikmanna í þessu ferli hefur ekki fengið að heyrast.
Ákvörðunin er galin að mörgu leyti,“ segir Björgvin Páll sem segst hafa heyrt hljóðið mörgum leikmönnum þvert á lið og ekki finnist sá maður sem er sáttur við að byrja ekki aftur fyrr en 9. maí að undanskildum tveimur frestuðum leikjum sem leiknir verða fljótlega. Það eigi hiklaust að sæta lagi og hefja keppni sem fyrst aftur.

„Verði keppni stöðvuð einu sinni enn þá er dæmið búið. Því miður óttast ég að til þess geti komið“

Jarðar menn andlega

„Í fyrsta lagi höfum við verið í stoppi frá leikjum í ríflega þrjár vikur og einhver lið sjá fram á leika ekki næstu þrjár vikur til viðbótar. Sú hugsun á eftir að jarða menn andlega. Menn eru bara að lenda í fimmtu bylgju covid andlega með þessum fréttum.


Sú fullyrðing að það eigi að gefa mönnum góðan tíma til að búa sig undir leikina fellur um sjálfa sig þegar ákveðið er að fjögur lið leiki tvo frestaða leiki fyrir landsliðspásuna,“ segir Björgvin Páll og á þar við að koma á tveimur frestuðum leikjum úr 14. umferð á dagskrá um aðra helgi.

Óttast annað stopp

„Að lengja leikjalausa tímabilið um þrjár vikur gerir það eitt að verkum að þetta tímabil sem leikið verður á og álagið verður meira þegar lagt verður af stað.
Þessu til viðbótar þá sé ég ekki hvernig þetta á allt saman að ganga upp með því að leika langt inn í sumarið. Miðið við núverandi fyrirkomulag er gert ráð fyrir að leika nánast til loka júní. Þar með er ekki gert ráð fyrir að neinn fari í sóttkví eða einhverjar hömlur verði lagðar á sem alltaf má búast við meðan veiran er á sveimi. Það sýndi sig síðast að um leið og nokkur smit greinast þá var skellt í lás. Verði keppni stöðvuð einu sinni enn þá er dæmið búið. Því miður óttast ég að til þess geti komið.

„Þetta er alveg eins íþrótt okkar leikmanna eins og þeirra sem sitja við skrifborðið allan daginn“


Þess vegna er lausnin að mínu mati að byrja sem fyrst að leika aftur og draga aðeins úr leikjaálaginu,“ segir Björgvin Páll sem m.a. vill ótrauður leika í landsleikjavikunni þótt það vanti einn eða tvo leikmenn inn í einhver lið. Liðin verði hreinlega að mæta því. Mikilvægast sé fyrir handboltann að fara af stað sem fyrst.

Skammgóður vermir

„Menn eru að velta fyrir sé hugsanlegum keppnisrétti í úrslitakeppni sem alls er óvíst að fari yfirhöfuð fram. Ef lið treysta sér ekki til að spila í landsleikjapásunni og nýta þann mannskap sem þau hafa vegna þess að þau eru aðeins að hugsa um að vinna sér sæti í úrslitakeppni sem kannski verður aldrei haldin. Það gæti orðið skammgóður fögnuður og væri sorglegt,“ sagði Björgvin Páll sem segir það heldur ekki vera gott fyrir handboltann og kynningu hans að leika langt inn í sumarið í samkeppni við sumaríþróttir. Auk þess sem sumarleyfi hefjast hjá mörgum þegar kemur fram í júní. Sumarleyfi sem almenningur hugsar til með eftirvæntingu eftir erfiðan vetur og hyggst nýta til samveru með fjölskyldu út um borg og bý.


„Það stefnir í að við munum leika langt í inn í sumarið. Hætt er við að hluti leikjanna í síðustu umferðunum verði óspennandi sem hvorki er til góðs fyrir leikmenn eða áhorfendur.“

Vonast eftir endurskoðun

„Nú hefur verið tekin röng ákvörðun að mínu mati sem er hvorki að vilja og þörfum leikmanna og né íþróttarinnar. Ekki er litið til þess hvað leikmenn vilja, hvað er gott fyrir handboltann. Því miður stefnir allt í katastrófu. Ég vona að þessi ákvörðun verði endurskoðuð, aðrar lausnir eru fyrir hendi. Þetta er alveg eins íþrótt okkar leikmanna eins og þeirra sem sitja við skrifborðið allan daginn,“ segir Björgvin Páll Gústavsson, hinn þrautreyndi markvörður íslenska landsliðsins og Hauka.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -