- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aldrei tapað fyrir Alsír

Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson í leik við Portúgal á Hm í Egyptalandi í janúar. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Ísland og Alsír hafa mæst átta sinnum á handknattleiksvellinum í leikjum A-landsliða. Ísland hefur unnið sjö leiki en einu sinni hefur orðið jafntefli, 27:27, á HM í Kumamoto í Japan fyrir 24 árum. Níundi leikurinn verður í kvöld í New Capital íþrótahöllinni í Kaíró og hefst klukkan 19.30.
Fyrsti leikur þjóðanna var árið 1983 á Baltic-Cup-mótinu í Austur-Þýskaland. Þann leik vann íslenska liðið 29:22.


Tvisvar á þessari öld hafa landslið Íslands og Alsír leitt saman hesta sína, í bæði skiptin á heimsmeistaramóti. Fyrri leikurinn var á HM í Túnis fyrir 16 árum. Ísland vann með níu marka mun, 34:25, en um var að ræða lokaleik beggja á mótinu. Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í leiknum með níu mörk og Róbert Gunnarsson var næstur með sjö. Alexander Petersson er sá eini sem er eftir í landsliðinu í dag sem tók þátt í leiknum í Túnisborg fyrir 16 árum. Hann skoraði þrjú mörk.


Síðari leikur þjóðanna til þessa á öldinni var á HM 2015 í Katar. Aftur vann Ísland öruggan sigur, 32:24, eftir að hafa lent upp við vegg snemma og m.a. 7:1 undir, eins og Arnór Þór Gunnarsson, núverandi fyrirliði landsliðsins, minnti á í gær í samtali við handbolta.is. Arnór Þór var einn fjögurra í núverandi landsliðshópi sem tók þátt i leiknum fyrir sex árum. Hann skoraði tvö mörk. Aðrir leikmenn núverandi landsliðs sem tóku þátt í viðureigninni í Doha fyrir sex árum eru: Alexander Petersson, Björgvin Páll Gústavsson og Kári Kristján Kristjánsson.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði flest mörk íslenska liðsins í leiknum í Doha, átta. Aron Pálmarsson var næstur með sjö og Alexander skoraði sex mörk.


Fyrri leikir:
13.12. 1983 – Ísland – Alsír 29:22
8.6. 1984 – Ísland – Alsír 19:15
1.3. 1987 – Ísland – Alsír 19:11
19.12. 1987 – Ísland – Alsír 22:17
22.9. 1988 – Ísland – Alsír 22:16
18.5. 1997 – Ísland – Alsír 27:27
29.1. 2005 – Ísland – Alsír 34:25
18.1. 2015 – Ísland – Alsír 32:24

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -