Alexander hefur ákveðið að hætta

Alexander Petersson hefur ákveðið að láta gott heita sem atvinnumaður í handknattleik. Mynd/Ívar

Alexander Petersson fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik sagði frá því í gær að hann hafi ákveðið að leggja handknattleiksskóna á hilluna eftir langan og sigursælan feril, jafnt með félagsliðum og íslenska landsliðinu. Alexander lék sína síðustu landsleiki á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í byrjun árs 2021. Hann verður 42 ára sumar.


Alls lék Alexander með íslenska landsliðinu í 16 ár, frá 2005 til 2021. Landsleikir eru 186 og mörkin 725. Alexander var kjörinn Íþróttamaður ársins 2010 af Samtökum íþróttafréttmanna og sæmdur Fálkaorðunni 2008.


Alexander var ein kjölfesta íslenska landsliðsins sem vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og bronsverðlaun á Evrópumótinu í Austurríki tveimur árum síðar. Alexander var valinn í úrvalslið heimsmeistaramótsins í Svíþjóð 2011 og var einnig markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í mótinu með 53 mörk.


Alexander fæddist í Riga í Lettlandi árið 1980 en flutti til Íslands árið 1998 og skaut hér rótum, kvæntist og lék handknattleik með Gróttu/KR. Hann hlaut íslenskan ríkisborgararétt 2003.

Alexander í búningi íslenska landsliðsins fyrir HM 2021. Mynd/HSÍ


Alexander segir í færslu á samfélagsmiðlum að hann hafi vitanlega alltaf gert sér grein fyrir að einn daginn kæmi að þessari ákvörðun. Hann hafi hinsvegar lagt sig allan fram til þess að halda eins lengi áfram og mögulegt hafi verið.


„Þegar ég hélt í handbolta í fyrsta sinn sem lítill drengur fyrir mörgum, mörgum árum, hefði ég aldrei getað ímyndað mér að ég myndi nokkurn tíma standa í þeim sporum og horfa til baka á svo margar fallegar upplifanir sem heimurinn gaf mér. Handbolti er gjöf.


Ég fékk að taka þátt í Ólympíuleikum, heimsmeistaramótum og Evrópumótum vann medalíur með Íslandi, vann Evrópubikar með félagsliði, varð þýskur meistari og bikarmeistari. Mikilvægast af öllu, þá kynntist ég frábæru fólki og eignaðist vini. Ég met þetta allt mjög mikils því þessi augnablik og kynni eru sérstök og ekki sjálfgefin,“ segir m.a. í lauslegri þýðingu á færslu Alexanders sem lýkur á að þakka fjölskyldu og vinum fyrir stuðninginn.

Alexander Petersson tekur við viðurkenningu frá Rhein-Neckar Löwen í síðasta leik sínum í SAP-Arena í vetur, gamla heimavellinum. Mynd/Rhein-Neckar Löwen


Síðasta árið hefur Alexander leikið með MT Melsungen í þýsku 1. deildini. Eftir að hann flutti til Þýskaland 2003 lék hann með Düsseldorf frá 2003 til 2005, Großwallstadt 2005 – 2007, Flensburg 2007 – 2010 og aftur frá febrúar 2021 fram í júní sama ár. Alexander var leikmaður Fücshe Berlin 2010 til 2012 og Rhein-Neckar Löwen frá 2012 fram í janúar 2021.


Nú þegar Alexander hættir að leika í þýsku 1. deildinni er hann leikjahæsti Íslendingurinn í sögu deildarinnar og einn leikjahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi með á sjötta hundrað leiki.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -