- Auglýsing -
- Auglýsing -

Arnór ráðinn þjálfari Tvis Holstebro

Arnór Atlason tilvonandi þjálfari Tvis Holstebro t.h. ásamt , Søren Hansen sem verður aðstoðarþjálfari liðsins. Mynd/Tvis Holstebro
- Auglýsing -

Arnór Atlason fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik hefur verið ráðinn aðalþjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Team Tvis Holstebro til þriggja ára frá og með sumrinu 2023. Um er að ræða karlalið Holstebro. Félagið sagði frá þessu í tilkynningu í morgun. Arnór er nú aðstoðarþjálfari bikarmeistara Aalborg Håndbold og hefur verið frá 2018 með afar góðum árangri.


Núverandi aðalþjálfari Holstebro, Søren Hansen, verður aðstoðarþjálfari og hægri hönd Arnórs. Ekki kemur fram í tilkynningu félagsins í morgun hvort pláss verður áfram fyrir Halldór Jóhann Sigfússon sem í sumar var ráðinn aðstoðarþjálfari Holstebro-liðsins til eins árs.

Arnór er 38 ára gamall. Hann lék 200 landsleiki og skoraði 427 mörk fyrir íslenska landsliðið frá 2004 til 2018. Eftir að Arnór kvaddi KA árið 2004 lék hann með Magdeburg, FCK København, AG København, Flensburg, Saint-Raphaël og Aalborg áður en hann hætti að leika handknattleik 2018 og sneri sér að þjálfun og hefur síðan verið aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold og þjálfari yngri karlalandsliða Danmerkur.
Arnór var í íslenska landsliðinu sem vann silfur á Ólympíuleikunum 2008 og bronsverðlaun á EM 2010.


Starfið hjá Holstebro verður það fyrsta hjá Arnóri sem aðalþjálfara meistaraflokksliðs karla. Hann hefur undanfarin ár þjálfað yngri landslið Dana og framlengdi í sumar til eins árs samning sinn við danska handknattleikssambandið um þjálfun 20 ára landsliðs karla fram yfir heimsmeistaramót 21 árs landsliða á næsta sumri. Arnór fetar nú að fullu i fótspor föður síns, Atla Hilmarssonar, sem árum saman var þjálfari félagsliða á Íslandi en einnig um skeið í Þýskalandi.


Í tilkynningu Holstebro í morgun segir að nýtt þjálfaratreymi með Arnór í aðalhlutverki hafi það markmið að fleyta Tvis Holsbro upp í hóp fjögurra bestu liða landsins.

Holstebro er bær á miðvesturhluta Jótlands, skammt vestan við Viborg og norðvestur af Herning. Tvis Holstebro varð til árið 2000 með sameiningu Holstebro Håndbold 90 og Tvis KFUM. Auk sigurs í bikarkeppninni 2008 og 2017 vann liðið til silfurverðlauna í úrvalsdeild karla 2016 og hreppti bronsverðlaun 2009, 2012, 2014 og 2020. Einnig varð Tvis Holstebro í þriðja sæti í EHF-bikarnum 2013. Fram til ársins 2019 rak félagið einnig kvennalið sem lék í úrvalsdeild en frá og með árinu 2020 var stofnað til annars félags um rekstur þess. Á síðustu leiktíð lenti Holsbro-liðið i kröppum dans og var nærri fallið úr úrvalsdeildinni en tókst að halda sæti sínu eftir umspil við lið úr 1. deild.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -